Óskað eftir gjaldþrotaskiptum eftir fall Landsbankans
Samson eignarhaldsfélag ehf. óskaði eftir þvi að félagið yrði tekið til gjaldþrotaskipta í október 2008. Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði 12. nóvember sama ár að félagið skyldi tekið til gjaldþrotaskipta og skipaði Helga Birgisson skiptastjóra þrotabúsins.
Á skiptafundi 20. febrúar 2009 lagði skiptastjóri fram skýrslu sína. Þar kom fram að um mitt ár 2008 voru eignir Samsonar samtals nærri 172 milljörðum króna. Þar af voru kröfur og aðrir veltufjármunir rúmir 65 milljarðar en fastafjármunir um 106 milljarðar en þar munaði mestu um eign félagsins í hlutabréfum í Landsbankanum að verðmæti um 91 milljarður króna. Þær eignir félagsins voru yfirteknar af stjórnvöldum í kjölfar setningar neyðarlaga á Alþingi þann 6.október 2008 og eftir það var gjaldþrot Samsonar óumflýjanlegt.
Í skýrslu skiptastjóra kemur fram að veðkröfur voru samtals um 106 milljarðar króna en almennar kröfur um 70 milljarðar króna.