Rannsókn varð að eftirgrennslan
Fréttastofa Sjónvarps birti á laugardagskvöldi fyrir páska frétt um að Deutche Bank hefði skipað rannsóknarteymi til að skoða meintan „óheiðarleika og lögbrot“ hjá fyrrum stjórnendum og eigendum Landsbankans. Fréttin var óljós, heimildir mjög veikar og bar hún öll merki kjaftasögu sem hvorki er hægt að staðfesta né neita. Ég taldi rétt að gera alvarlegar athugasemdir við fréttastjóra RÚV, Óðin Jónsson, vegna fréttarinnar á fyrsta virka vinnudegi eftir páska. Í vinsamlegu svari sagði Óðinn að fréttastofan stæði efnislega við fréttina en þar talaði hann ekki um rannsókn heldur „eftirgrennslan“ hjá Deutche Bank.
Fréttastofa Sjónvarps sá ástæðu til þess að blása upp frétt á laugardagskvöldi fyrir páska að Deutche Bank hefði skipað rannsóknarteymi til að skoða meintan „óheiðarleika og lögbrot“ hjá fyrrum stjórnendum og eigendum Landsbankans. Fréttin var óljós, heimildir mjög veikar og bar þessi frétt yfirbragð kjaftasögu sem hvorki væri hægt að staðfesta né neita. Ég taldi rétt að gera senda fréttastjóra RÚV, Óðni Jónssyni, línu vegna þessa máls á fyrsta virka vinnudegi eftir páska. Þar segir m.a:
„Ég er knúinn til að gera alvarlegar athugasemdir við frétt RÚV hinn 3. apríl sl. sem greindi frá meintri skoðun sérstaks rannsóknarteymis á vegum Deutsche Bank á starfsemi Landsbankans fyrir fall íslensku bankanna haustið 2008.
Frétt þessi var raunar lengst af í formi vangaveltna um hversu víða íslensku bankarnir hefðu fengið fé að láni og gefið í skyn að „digrir sjóðir hafi ratað í skattaparadísir suður undir miðbaug.“ Þá er fullyrt, að sérstakt rannsóknarteymi lögfræðinga og endurskoðenda á vegum Deutsche Bank hafi fyrrverandi bankastjóra Landsbankans og fyrrverandi aðaleigendur bankans til sérstakrar skoðunar og hafi fengið upplýsingar bæði hjá nýja og gamla bankanum og vísað er til meints óheiðarleika þeirra og hugsanlegra lögbrota. Loks var gefið í skyn að það væri á valdi þessa rannsóknarteymis að taka ákvörðun um hvort menn yrðu sóttir til saka og þykir mér RÚV þá fara heldur frjálslega með ákæruvald í sakamálum!
Ég þarf auðvitað ekki að rekja þessa óvönduðu frétt nánar fyrir þér. Skemmst er þó frá því að segja að þrátt fyrir mikla eftirgrennslan mína frá því að fréttin var birt hef ég hvergi getað fengið nokkra staðfestingu þess að „sérstakt rannsóknarteymi“ Deutsche Bank vinni að slíkri rannsókn, hvað þá að þýski bankinn hafi leitað eftir upplýsingum hjá nýja og gamla bankanum. Vissulega er hugsanlegt,þótt ég hafi ekki fengið slíkt staðfest, að Deutsche Bank hafi í huga að kanna grundvöll einkaréttarmáls, eins og algengt er í viðskiptum af ýmsu tilefni. Slíkt kallar hins vegar ekki á upphrópanir um óheiðarleika eða undanskot fjármuna.
Þessi tilhæfulausa frétt fór eins og eldur í sinu um netheima og var samstundis tekin upp af öllum öðrum fjölmiðlum. Þar varð ímynduð fjöður RÚV að fjölmörgum hænum.“
Og tölvupóstinum lýk ég á eftirfarandi orðum:
„Ég geri mér fyllilega grein fyrir, að jafnvel bestu fréttamönnum geta orðið á mistök. Það getur vissulega verið erfitt að greina sannleikann frá þeim linnulausa áróðri, sem margir telja sér sæma að koma á framfæri. Ég fer hins vegar fram á að fréttastofa allra landsmanna leggi sig sérstaklega fram um að flytja sannar fréttir og láti hinar eiga sig, sem ekki er með nokkru móti hægt að sannreyna og hljóta því að teljast vafasamar í meira lagi, ef ekki helber uppspuni. Og verði mönnum á að birta fréttir, sem síðar er sýnt fram á með óyggjandi hætti að eru uppspuni frá rótum, þá hljóta þeir sem málið varðar að eiga skýlausan rétt á að hinu sanna verði gert jafn hátt undir höfði og uppspunanum.“
Óðinn Jónsson, fréttastjóri RÚV, svaraði tölvupósti mínum af kurteisi og sagði m.a:
„Ég þakka bréfið. Auðvitað fórum við yfir þínar ábendingar og sjónarmið. Það er skemmst frá því að segja að við stöndum við fréttina um eftirgrennslan Deutche Bank. Hinsvegar var klaufalegt að tala um að bankinn kannaði möguleikann á að láta sækja til saka, það gerir auðvitað aðeins opinber saksóknari. Efnislega stendur þó fréttin.“