Novator kaupir Actavis

 

Þann 10. maí 2007 tilkynnti Novator fyrir hönd óstofnaðs félags í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar að það hefði ákveðið að gera yfirtökutilboð í allt hutafé í Actavis Group hf sem ekki var í eigu félaga tengdum Novator eða í eigu Actavis.Í hönd fóru stærstu viðskipti Íslandssögunnar frá stríðslokum.

Boðið var € 0.98 fyrir hvern hlut eða sem jafngilti 85,23 ISK og var það hærra en lokagengi hafði verið hæst og talsvert umfram það sem  mat alþjóðlegra banka hafði gefið til kynna mánuðina á undan, – Merrill Lynch í janúar, Cazanove í ferbúar og Glitni í mars.

Í yfirtökutilboði sem birt var í júní segir að samkeppni innan samheitalyfjageirans fari sífellt vaxandi og að samþjöppun sé hröð og barátta um leiðandi stöðu á lykilmörkuðum harðni stöðugt. „Í slíku síbreytilegu og hörðu samkeppnisumhverfi telur tilboðsgjafi mikilvægt að Actavis hafi frelsi til að einbeita sér að rekstrinum“, segir í yfirlýsingunni og bætt er við að mikilvægt sé að búa við sveigjanleika sem óskráð félög njóti en skráð félög búa við skyldur og kvaðir m.a. um viðvarandi upplýsingaskyldu. Þá segir að tilboðsgjafi vilji beita sér fyrir aukinni áhættusækni sem ekki sé heppileg fyrir almenna fjárfesta. Í stuttu viðtali við Morgunblaðið sagði Björgólfur Thor ákvarðanatöku í einkahlutafélögum hraðari og áhættan aðeins á herðum þeirra sem ákvarðanir taka. Í tilboðinu kemur fram að umtalsverður hluti kaupverðs verði tekinn að láni hjá Deutsche Bank. Stjórn Actavis mælti með tilboði Novators við hlutahfa félagsins þann 23. júní. Fyrir júlíbyrjun hafði Novator fengið vilyrði fyrir 50-60% allra hlutabréfa og uppúr miðjum júlí var 90% markinu náð. Við það myndaðist söluskylda hjá þeim hluthöfum sem ekki höfðu gefið vilyrði sitt. Í lok júlí hafði félagið tryggt sér 99,66% í félaginu. OMX Nordic Exchange Iceland hf samþykkti beiðni um afskráningu Actavis Group hf af aðallista Kauphallarinnar þann 10. ágúst og var félagið afskráð eftir lokun viðskipta mánudaginn 13. ágúst 2007.

Heildarverðmæti viðskiptanna voru um € 5,3 milljarðar. Novator lagði inn eigið fé í formi hlutafjár að upphæð € 935 milljónir og aðrir samherjar €260 milljónir eða samtals €1.195 milljónir. Lánsfé nam um €4,100 milljónum og var hlutur íslenskra banka um 6% af fjármögnunni.

Novator greiðir 350 milljarða króna til íslenskra fjárfesta

Í Morgunkorni Glitnis þann 17. júlí 2007 segir að verðmæti þeirra hluta sem ekki voru í eigu félaga tengum Novator nemi um 180 milljörðum króna og segir jafnframt að þessir fjármunir renni til um 4000 íslenskra hluthafa. Í Morgunkorninu segir einnig að áhirfa þessa sé þegar farið að gæta á mörkuðum og skýri hækkun á gengi hlutabréfa í Kauphöllinni og styrkingu krónunnar. Miðað við gengi krónunnar gagnvart evru árið 2010 nema greiðslur Novators til íslenskra fjárfesta um 350 milljörðum króna.

Lífeyrissjóðir og bankar fá greiddar 778 milljónir evra

Fjármunir runnu til hluthafa félagsins og endurgreiðslu á lánum m.a. innlendra lánastofnanna. Þannig fengu Glitnir og Landsbankinn endurgreidd lán að fjárhæð um €450 milljónir.

Níu stærstur hluthafa í hópi einstaklinga og fjölskyldna fengu greiddar um €437 milljónir en Milestone, fjárfestingafélag bræðranna Steingríms og Karls Wernerssona, fékk hæstu einstöku útborgunina eða sem nam rúmum € 213 milljónum. Greiðslur til stærstu hluthafa í hópi lífeyrissjóða og peningasjóða  voru sem hér segir:

  • Gildi                                                                € 94 milljónir
  • Lífeyrissjóður Verslunarmanna                € 73 milljónir
  • Lífeyrissjóðurinn Bankastræti 7                € 59 milljónir
  • Fjárfestingasjóður ÍS-15                            € 27 milljónir
  • Sameinaði lífeyrissjóðurinn                       € 20 milljónir
  • Lífeyrissjóður Norðurlands                        € 18 milljónir
  • Stafir lífeyrissjóður                                       € 14 milljónir
  • Lífeyrissjóður Vestfirðinga                         € 12 milljónir
  • Landssjóður hf, úrvalsbréfadeild              €11 milljónir
  • SAMTALS                                                     €328 milljónir

Í september 2008 var síðan gefið út nýtt hlutafé að fjárhæð € 180 milljónir og keypti Björgólfur Thor hlutafé að verðmæti €160 milljónir.