Icesave styrkti Landsbankann

Björgólfur Thor Björgólfsson gerðist hluthafi í Landsbankanum 2003 og var lengi annar tveggja stærstu hluthafa Landsbankans, – hinn var faðir hans, Björgólfur Guðmundsson, sem var formaður bankaráðs Landsbankans frá 2003 til hausts 2008. Björgólfur Thor átti því mikilla hagsmuna að gæta og fylgdist hann vel með umsögnum matsfyrirtækja, greiningadeilda alþjóðlegra banka og eftirlitsaðila um alla þætti í starfsemi bankans. Hann kom hins vegar ekkert nærri rekstri bankans. Hann bar sjálfur mikla ábyrgð sem stjórnarformaður bæði í Straumi og Actavis og einbeitti hann sér að þeim verkefnum og var athyglin fyrst og síðast á þeim fyrritækjum. Hann treysti forystu föður síns í Landsbankanum, hann sat aldrei í bankaráði Landsbankans og tók ekki þátt í ákvörðunum er varðaði rekstur bankans.

Það var samdóma álit bankastjórnar, matsfyrirtækja, greiningadeilda alþjóðlegra fyrirtækja og eftirlitsaðila heima og erlendis veturinn 2006/2007 að söfnun innlána hjá almenningi í Bretlandi væri mikið gæfuspor fyrir Landsbankann. Bankinn var að draga úr fjármögnunaráhættu sinni, eins og fram kemur í skýrslu bankastjóra Landsbankans, með því  að fjölga innlánaleiðum, en hafa ber í huga að stærsti hluti útlána bankans var vegna erlendra verkefna og áframhaldandi erlend fjármögnun var því bankanum nauðsyn. Björgólfur Thor leit svo á, líkt og aðrir fagaðilar á fjármálamarkaði, að með Icesave væri bankinn að treysta stoðir sínar og styrkja stöðu sína í samkeppni.