Icesave kynnt í bankaráði

Eins og fram kemur í skýrslu um starfshætti bankaráðs Landsbankans þá tóku bankastjórar allar ákvarðanir er vörðuðu innlánareikninga bankans heima og erlendis og var bankaráðinu kynnt áform og ákvarðanir um Icesave innlánareikningana tveimur dögum áður en bankinn hóf að auglýsa þá á Bretlandseyjum og taka við innlánum.

Bankaráð Landsbankans fylgdist með samskiptum bankastjórnar við FME og systurstofnun þess í Bretlandi, FSA, um skipan og stöðu Icesave innlána og væntanlegan flutning þeirra í breskt dótturfélag. Almennar umræður um tryggingar innlána fóru ekki fram í bankaráði umfram það að bankinn fylgdi lögum og reglum hvað slíkar tryggingar varðaði eins og fram kemur í skýrslu bankaráðs. Björgólfur Thor leit fyrst og fremst á eignir bankans sem tryggingu allra innlána og þá um leið sem helstu tryggingu fyrir því að verðmæti hlutabréfa hans í bankanum rýrnuðu ekki. Þegar hin alþjóðlega fjármálakreppa náðu sínum dýpstu lægðum við fall Lehman Brothers um miðjan september 2008 var hugur fjárfesta fyrst og fremst við það að reyna að bjarga fyrirtækjum frá falli. Staða íslenska innlánatryggingasjóðsins var mönnum ekki ofarlega í huga því fæstir hugsuðu til enda þá hugsun að allt íslenska bankakerfið gæti fallið.