Góð viðbrögð við vefnum

Viðbrögð við þessum vef hafa ekki  látið á sér standa. Fjölmiðlar hafa fjallað
um ýmislegt sem hér kemur fram og ýmsir bloggarar lagt orð í belg. Ég hef
fengið ýmis persónulegri skilaboð, sem ég vil hér með þakka fyrir, en ég mun
jafnframt svara hverjum og einum sem sent hefur inn fyrirspurn á vefinn. Allt
frá hruni hefur verið kallað eftir opnara samfélagi og gagnsærra.  Þessi vefur er framlag til þess. Það má því
furðu sæta þegar menn tala og skrifa á þann veg, að ég eigi ekkert með að setja
þessar upplýsingar fram. Ég áskil mér hins vegar rétt til málfrelsis og því
fullkomlega eðlilegt að ég leggi fram allar upplýsingar um viðskipti mín.
Umræða hlýtur að verða hnitmiðaðri og marktækari ef sem mestar upplýsingar
liggja fyrir, til að byggja skoðanir sínar á. Ýmsir hafa raunar komið auga á mikilvægi
þess að öll sjónarmið heyrist og er það vel.

Auðvitað þykir mér vænt um að heyra frá þeim sem stappa í mig stálinu og þakka mér fyrir viðleitni mína til að varpa ljósi á öll viðskipti mín á Íslandi. En ég kann líka að meta þá sem gagnrýna efni þessa vefjar, svo framarlega sem sú gagnrýni er sett fram á málefnalegan hátt.

Ég átti alltaf von á því að sumar af þeim  staðreyndum sem fram koma í skjölum á þessum vef myndu vekja viðbrögð hjá þeim sem málin varða. Það er eðlilegt því menn standa oftast með eigin verkum.

Ómálefnaleg viðbrögð hafa því miður verið nokkuð áberandi. Og þau hafa jafnvel komið frá þeim sem síst skyldi; þeim sem ráða miklu um hvernig almenn umræða mótast og telja sig þess umkomna að vega og meta fullyrðingar annarra. Sumir ofurbloggara hafa t.d. vísað í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, þar sem rakið er hve miklar skuldir mínar voru við Landsbankann og Straum-Burðarás  við fall þessara banka, en láta alveg undir höfuð leggja að nefna að ég hef gert upp allar skuldir mínar við þessa banka. Frá því skuldauppgjöri mínu var skýrt í síðasta mánuði, eins og flestum ætti að vera í fersku minni. Þá hefur jafnframt komið fram, að eftir könnun slitastjórnar Landsbankans og skilanefndar Straums hefur ekkert það komið fram, sem kallað hefur á málshöfðun gegn mér eða riftun þeirra gjörninga sem ég kom að.

Áhugaleysi á samstarfi

Á þessum vef er skýrt frá því að ákveðið hafi verið á sínum tíma að víkja Róbert Wessman, þáverandi forstjóra Actavis, úr starfi. Ástæða þess var annars vegar að rekstraráætlanir sem hann bar ábyrgð á stóðust engan veginn, auk þess sem félagið tapaði háum fjárhæðum vegna gæðavandamála í verksmiðju í Bandaríkjunum og orðsporsvanda í kjölfarið.  

Í yfirlýsingu í gær segist Róbert Wessman hafa lýst því ítrekað yfir við mig, á meðan hann var enn forstjóri Actavis,  að hann hefði ekki áhuga á að starfa frekar með mér.  Hið sanna er að áhugi minn og stjórnar Actavis á áframhaldandi samstarfi við þáverandi forstjóra  var enginn. Milli mín og forstjórans hafði orðið algjör trúnaðarbrestur. Hann var önnum kafinn við eigin fjárfestingar og er nú í harðri samkeppni við Actavis sem stjórnandi og einn stærsti eigandi bandaríska lyfjafyrirtækisins Alvogen. Frá því að leiðir hans og Actavis skildu hefur hann borið víurnar í fjölmarga starfsmenn Actavis og unnið skipulega gegn fyrirtækinu. Yfirlýsingar hans ber að skoða í því ljósi.