Fáránleg frétt á Stöð 2

Stöð 2 birti í gærkvöldi fáránlega frétt um „skuggastjórnendur“ íslensku bankanna fram til haustsins 2008 og segir í fréttinni að eigendurnir muni “ að öllum líkindum sleppa“. Fréttastofan tekur dæmi um mig sem „skuggastjórnanda“ þegar ég átti fundi með íslenskum ráðamönnum um mánaðarmótin september / október 2008. Þá rambaði bankakerfið á barmi hengiflugs og viðræður voru um sameiningar banka og breytingar á eignarhaldi þeirra. Ljóst er af þessum fréttaflutningi að Stöð 2 virðist ekki skilja hlutverk eigenda í fyrirtækjum og er umhugað um að tengja mig við athæfi sem ég muni „að öllum líkindum sleppa“ með. Af þessu tilefni sendi ég fréttastjóra Stöðvar 2 bréf. Annars er rétt að geta þess að íslensk lög hvorki kveða á um brot af því tagi sem fréttastofan hefur búið til né um refsiábygð sem menn eins og ég eiga að hafa sloppið undan.

Stöð 2 birti í gærkvöldi fáránlega frétt um „skuggastjórnendur“ íslensku bankanna fram til haustsins 2008 og sagði þar að eigendur myndu „að öllum líkindum sleppa“. Fréttastofan tekur dæmi um mig sem „skuggastjórnanda“ þegar ég átti fundi með íslenskum ráðamönnum um mánaðarmótin september / október 2008 þegar bankakerfið rambaði á barmi hengiflugs og viðræður voru um sameiningar banka og breytingar á eignarhaldi þeirra. Ljóst er af þessum fréttaflutningi að Stöð 2 virðist ekki skilja hlutverk eigenda í fyrirtækjum og er umhugað um að tengja mig við athæfi sem ég „að öllum líkindum sleppa“ með. Af þessu tilefni sendi ég fréttastjóra Stöðvar 2, Óskari Hrafni Þorvaldssyni, bréf. Það hljóðaði svona:

Sæll Óskar.

Ég get ekki látið hjá líða að gera athugasemd við afar ósanngjarna framsetningu frétta  af „skugga-stjórnendum“. Í fréttinni er gengið út frá því sem vísu að eigendur íslensku bankanna hafi á einhvern hátt gerst brotlegir við lög með aðkomu sinni að stjórnun bankanna. Tekið er fram í öðru orðinu að engin ákvæði í íslenskum lögum taki á hugsanlegri refsiábyrgð „skuggastjórnenda“ bankanna, en í hinu segir fréttamaðurinn, Þorbjörn Þórðarson,  að eigendurnir muni „að öllum líkindum sleppa“, þar sem refsiábyrgð hafi legið hjá stjórn og forstjóra. „Sleppa?“ Undan refsiákvæðum sem ekki eru til vegna meintra brota sem ekki eru nefnd einu orði í íslenskri löggjöf?

Eitt er hversu órökrétt fréttin er, annað og alvarlegra að fréttamaðurinn, Þorbjörn Þórðarson, skuli halda hugleiðingum sínum áfram með því að fjalla sérstaklega um mig og fundi mína með ráðamönnum þegar bankarnir voru að hrynja og ljóst að breytingar á eignarhaldi íslensku bankanna gátu verið yfirvofandi en slík viðfangsefni eru eðlilega í höndum helstu eigenda en ekki stjórnenda bankans. Fréttamaðurinn flytur engu að síður skýringu sína á hugtakinu skuggastjórnandi og segir svo: „Sennilega hefur þetta aldrei birst skýrar fyrir opnum tjöldum en þegar eigendur stórra banka funduðu með ráðamönnum í aðdraganda bankahrunsins. Komið hefur fram að Björgólfur Thor Björgólfsson réð ferðinni í ráðherrabústaðnum helgina fyrir setningu neyðarlaganna. Lýsing á þessu hefur birst, m.a í bókum um bankahrunið. Þessa helgi var Björgólfur sjálfur mjög sýnilegur á fundum í stjórnarráðinu og var myndaður með bankastjórunum, Halldóri J. Kristjánssyni og Sigurjóni Þ. Árnasyni, á leiðinni á fund þar helgina fyrir setningu neyðarlaganna.“

Með þessari frétt fylgdu myndir af mér á tröppum stjórnarráðsins og skilaboðin augljós: Þarna hafði skuggastjórnandi verið gripinn glóðvolgur, fyrir tilstilli fréttamanns Stöðvar 2, 18 mánuðum eftir meint brot. Uppsetning fréttarinnar er í hæsta máta ósanngjörn og í raun fáránleg. Það að stór hluthafi í Landsbankanum hafi átt fundi með ráðamönnum dagana sem kerfishrun vofði yfir, þar sem meðal annars var rætt um hugsanlega sameiningu bankans við annan banka, hefur að sjálfsögðu ekkert með svokallaða skuggastjórnun að gera.

Þegar langt var liðið á fréttina tók fréttamaðurinn skýrt fram að í fréttinni væri ekki verið að „vísa sérstaklega til Björgólfs Thors, enda var það aðeins nefnt til skýringar hér að framan.“  Til skýringar á hverju? Skuggastjórnun? Sem samkvæmt fréttinni getur ekki talist annað en óvandaðar og ósanngjarnar vangaveltur fréttamanns og hefði aldrei getað átt við um þessa daga fyrir hrun? Og er hvort eð er fyrirbæri sem hvergi kemur fyrir í íslenskum lögum, hvað þá að tíunduð sé refsiábyrgð!

Það er áhyggjuefni að fréttastofa Stöðvar 2 skuli telja sér sæmandi að hamra á nafni mínu og birta af mér myndir með frétt, sem er uppfull af dylgjum og aðdróttunum. Það væri ánægjuleg nýbreytni ef íslenskur fréttamiðill sæi að sér, viðurkenndi að hafa gengið of langt, og bæðist velvirðingar.