Er meint ábyrgð áunnin?

Í Landsbankanum var ekki litið svo á að ríkið bæri ábyrgð á innlánum einkabanka, þó svo fyrir lægju yfirlýsingar stjórnvalda um stuðning við bankana ef í harðbakkann slægi. En þá vakna spurningar um hvort eitthvað sem öllu breytti hafi gerst eftir að bankinn féll úr höndum einkaaðila? Þá kemur tvennt til. Annað hvort varð meint ábyrgð eða skuldbindingar ríkissjóðs til við setningu neyðarlaga rétt fyrir miðnætti 6.október og yfirtöku FME á Landsbankanum í krafti nýsettra neyðarlaga að morgni 7.október 2008 eða í samskiptum stjórnvalda við breska og hollenska aðila eftir að bankinn féll úr hendi einkaeigenda. Ef ábyrgð íslenska ríkisins er til staðar í dag þá varð hún til eftir 6.október 2010.

Fátt hefur komið fram sem skýrir hvernig meintar ábyrgðir eru til komnar. Í athyglisverðri grein eftir þáverandi aðstoðarmann utanríkisráðherra , Kristrúnu Heimisdóttur, kemur fram að þegar Alþingi samþykkti ályktun í desember 2008 um að leita samninga á grundvelli svokallaðra Brussels-viðmiða eru ábyrgðir ekki skýrar. Hún segir:  „Eftir ályktun Alþingis í desember 2008 var það stærsta einstaka hagsmunamál þjóðarinnar af öllum á þeim tíma, að fylgja Brussel-viðmiðunum eftir samkvæmt orðalagi sínu, en Ísland vissi t.d. að breska fjármálaráðuneytið taldi Bretland hafa samið af sér með viðmiðunum. Með þeim voru Bretar enda búnir að samþykkja marghliða ferli, þar sem taka skyldi tillit til sérstakra og fordæmislausra aðstæðna á Íslandi og nauðsynjar þess að endurreisa efnahagslíf landsins. Þeir voru búnir að samþykkja texta sem fól ekki í sér neitt afsal réttarstöðu fyrir Ísland, ekki viðurkenningu á greiðsluskyldu samkvæmt lögum heldur einungis að EES-réttur gilti eins á Íslandi og hann gerir alls staðar á innri markaðnum.“  Erfitt er að sjá hvar og hvernig þessar skuldbindingar urðu til. Í áðurnefndri grein Kristrúnar virðist samninganefnd Íslands ekki fylgja eftir Brussels-viðmiðum enda hljóðar skipunarbref nefndarinnar ekki eins og að húni eigi að ganga til margþættra pólitískra samninga heldur fremur til að ganga frá lánaskilmálum. Í yfrilýsingu ríkisstjórnar frá 11. janúar 2010 er heldur ekki að finna afdráttarlaus og skýr svör við spurningunni um hvernig ábyrgðirnar urðu til. Eitt er þó víst. Reglur Evrópusambandsins taka ekki á hvar ábyrgð liggur þegar tryggingasjóðir innistæðna getur ekki staðið undir skuldbindingum við fall fjármálakerfis. Spurningin er hver tryggir þegar tryggingakerfið hrynur?