Eftirspurnarskellir ollu vandræðum
Ásgeir Daníelsson, hagfræðingur hjá Seðlabankanum flutti erindi nýlega um áhrif peningastefnu Seðlabankans á hrun bankakerfisins haustið 2008. Þó svo ég lýsi mig ekki sammála öllum hans ályktunum fannst mér frískandi að kynna mér efni fyrirlestrarins í samanburði við hálf- og vanþekkinguna sem einkennir umræðuna um orsakir hrunsins á vettvangi fjölmiðla- og stjórnmála. Ásgeir leggur áherslu á að það sem mestu hafi valdið um hvernig fór voru svokallaðir eftirspurnarskellir, ekki peningastefnan.
Í fyrirlestri sínum í Málstofu á vegum Seðlabankans er Ásgeir Daníelsson að verja peningastefnu Seðlabankans og hann bendir á að oftrúin á stöðugleika gjaldmiðilsins hafi ekki með peningastefnuna að gera. Hann bendir á að aðrir en Seðlabankinn hafi auglýst ágæti og styrk íslenska hagkerfisins á árinu 2005. Hann telur að hinir svokölluðu eftirspurnarskelli hafi mestu skipt um hvernig fór en þeir helstu voru:
• Kárahnjúkavirkjun og Reyðarál. Þessi fjárfesting nam tæpum 300 milljörðum á árunum 2005-2007 eða sem nemur tæpum 8% af VLF. Þessi skellur var fyrirsjáanlegur
• Einkavæðing bankanna og rýmkun útlána Íbúðalánasjóðs leiddi til mikillar útlánaþenslu. Þessi reynsla var í samræmi við það sem skeði á hinum norðurlöndunum 15 árum áður.
• Gífurleg hækkun eignaverðs, einkum verðs á hlutabréfum. Langmest á árunum 2004 og 2005
• Lækkun tekjuskatts um þrjú prósentustig sem ákveðin var við upphaf þensluskeiðsins 2004 og kom til framkvæmda á árunum 2005-2007 þegar brýnt var að draga úr eftirspurn.
• Lækkun bindisskyldu úr 4% í 2% árið 2003, strax eftir að bankarnir voru einkavæddir.
Þessi fyrirlestur er athyglisverður og áhugaverður. Ég mæli með honum.