Actavis – ein styrkasta stoð atvinnulífsins
Actavis, sem áður hét Pharmaco, varð á stuttum tíma eitt af stærstu samheitalyfjafyrirtækjum veraldar og jafnframt stærst allra fyrirtækja á Íslandi. Segja má að Actavis sé eitt þeirra flaggskipa íslensks atvinnulífs sem náð hefur fótfestu á alþjóðamarkaði og stóð af sér storminn haustið 2008. Á vordögum 2012 keypti bandaríska lyfjafyrirtækið Watson rekstur Actavis og í nóvember sama ár sameinuðust fyrirtækin. Þá var jafnframt ákveðið að heiti hins sameinaða, alþjóðlega fyrirtækis yrði Actavis. Sameinað fyrirtæki er þriðja stærsta samheitalyfjafyrirtæki heims, með 17 þúsund starfsmenn í 60 löndum.
Merkustu tímamótin í yfir 50 ára sögu félagsins voru á árunum 1999 og 2000 þegar félagið í samráði við Björgólf Thor Björgólfsson og fleiri urðu stærstu hluthafar í búlgarska lyfjafyrirtækinu Balkanpharma. Í framhaldinu keypti Björgólfur Thor um 15% hlut í Pharmaco hf. og þá sköpuðust aðstæður til þess að sameina Pharmaco og Balkanpharma. Varð það raunin í júlí 2000 og fengu þá fyrrum eigendur Balkanpharma greitt í hlutabréfum i Pharmaco sem skráð var á Viðskiptaþingi Íslands. Á þessu rúma ári breyttist Pharmaco úr litlu lyfjafyrirtæki sem einkum dreifði lyfjum á Íslandi og framleiddi algengustu samheitalyfin fyrir heimamarkað yfir í alþjóðlegt lyfjafyrirtæki með góða fótfestu í Austur-Evrópu. Björgólfur Thor varð formaður stjórnar félagsins. Sindri Sindrason var forstjóri félagsins. Þarna var búið að marka stefnu og í hönd fóru ár mikils vaxtar. Innan 7 ára var félagið komið í röð stærstu félaga á samheitalyfjamarkaði í heiminum. Á Íslandi breyttist starfsemin mest árið 2002 þegar lyfjaheildsöluhlutinn var seldur og lyfjafyrirtækið Delta keypt og félögin tvö sameinuð. Þá settist Róbert Wessmann við hlið Sindra í sæti forstjóra og hætti síðan Sindri um ári síðar.
Félaginu var gefið nafnið Actavis árið 2004. Af því tilefni varð til nýtt vörumerki og ný, skýr og kröftug ásýnd félagsins sem fylgdi vel á eftir vexti félagsins á almennum lyfjamarkaði á lykilmarkaðssvæðum félagins, í Norður-Ameríku, Vestur-Evrópu og Mið – og Austur Evrópu.
Lengi vel var Actavis stærsta félagið sem skráð var í Kauphöll Íslands. Verðmæti félagsins á markaði jókst hratt og þá voru hlutafjáraukningar tíðar og ávallt var eftirspurn mikil eftir bréfum í félaginu. Þegar komið var fram á árið 2006 var að mati stjórnar komið að tímamótum hjá félaginu. Fyrirtækið hafði vaxið mjög hratt og því var mikilvægt að leggja ríka áherslu á samþættingu starfseininga, gæði og rekstrarhagnað. Skráning félagsins á markað hafði auðveldað til muna fjármögnun kaupa á öðrum fyrirtækjum en við breyttar aðstæður mátu leiðandi fjárfestar að hagsmunum félagsins og hluthafa væri best borgið með því að selja fyrirtækið að því gefnu að hluthafar teldu verð ásættanlegt.
Félög undir forystu Björgólfs Thor Björgólfsson gerðu tilboð í allt hlutafé í félaginu sem var samþykkt og var félagið afskráð í Kauphöll Íslands sumarið 2007. Heildarverðmæti viðskiptanna voru 5,3 milljarðar evra. Eigið fé kaupenda var um 1,2 milljarðar evra en lán voru samtals um 4.1 milljarður evra. Hluthafar Actavis, aðrir en þeir sem stóðu að yfirtöku félagsins, sem flestir voru íslenskir fjárfestar eða starfsmenn og stjórnendur félagsins, fengu greitt í evrum fjárhæð sem á árinu 2010 nam um 350 milljörðum króna og þar af fengu lífeyrissjóðir og fjárfestingafélög yfir 100 milljarða króna í sinn hlut. Þessi viðskipti teljast mestu viðskipti á Íslandi frá stríðslokum og eitt mesta innstreymi fjármuna í íslenskt hagkerfi á seinni tímum og skatttekjur hins opinbera vegna viðskiptanna náum tugum milljarða samkvæmt samantektum fjölmiðla.
Við afskráningu á Actavis í Kauphöll breyttust forsendur samskipta hluthafa við stjórnendur og létt var reglum markaða um upplýsingagjöf til hluthafa. Jafnhliða því að eigendur félagsins kynntust betur starfsemi þess varð ljóst veturinn 2007 – 2008 að rekstraráætlanir stjórnenda stóðust engan veginn. Þá um leið breyttust allar viðskiptalegar forsendur yfirtökunnar. Til viðbótar komu upp víðtæk gæðavandamál í einni verksmiðju félagsins í Bandaríkjunum sem hafði í för með gífurlegt tekjutap fyrir félagið og orðsporsvanda á þessu mikilvægasta markaðssvæði félagsins. Við úrlausn þessara vandamála var m.a. gripið til þess að víkja forstjóra félagsins frá árinu 2002, Róberti Wessmann, úr starfi og var aðstoðarforstjórinn Sigurður Óli Ólafsson ráðinn í hans stað. Árið 2010 tók Claudio Albrecht við forstjórastöðunni, en Sigurður Óli hóf störf hjá Watson Pharmaceuticals.
Rekstur Actavis hefur gengið vel undanfarin ár og áætlanir félagsins staðist. Skuldir félagsins vegna yfirtökunnar 2007 voru verulegar og því ekki vandalaust að sigla félaginu á kyrran sjó. Stjórnendur félagsins, eigendur og lánardrottnar sýndu mikinn einhug og átt gott samstarf um framtíð félagsins. Árangur þess starfs varð ljós á vordögum 2012 þegar bandaríska fyrirtækið Watson Pharmaceuticals greiddi 700 milljarða króna fyrir Actavis. Við sameiningu félaganna varð til þriðja stærsta samheitalyfjafyrirtæki heims, með 17 þúsund starfsmenn í 60 löndum. Nýtt, sameinað félag ber nafn Actavis.
Við söluna á Actavis kaus Björgólfur Thor að fá stóran hluta greiðslu sinnar í formi hlutabréf og vísaði til þess að hann hefði, nú sem fyrr, mikla trú á framtíð fyrirtækisins. Í byrjun maí 2013 var árangurstengd greiðsla greidd að fullu, alls 5,5 milljónir hlutir í hinu sameinaða félagi. NDS sem er að stærstum hluta í eigu Novators, fjárfestingarfélags Björgólfs Thors Björgólfssonar, varð þar með 6. stærsti hluthafi félagsins.