Viðbrögð Breta í nýju ljósi

Bresk stjórnvöld létu sem að bankakerfi landsins stæði traustum fótum í lok september og byrjun október árið 2008. Afdráttarlaus og harðvítug viðbrögð þeirra við setningu neyðarlaga á Íslandi og viðbrögðum stjórnvalda á Íslandi við greiðsluvanda íslensku bankanna komu Íslendingum og umheiminum öllum á óvart.

Viðbrögð Breta er nú hægt að skoða í ljósi þess að vandi þeirra var í raun miklu stærri en þeir vildu vera láta. Mervyn King bankastjóri Englandsbanka sagði frá því um ári síðar að tveir af stærstu bönkum Englands, RBS og HBOS, hefðu aðeins verið klukkustundum frá banvænum lausafjárvanda.