Örlög Samsonar eignarhaldsfélags ehf.

Þegar skilanefnd tók yfir rekstur Landsbanka Íslands morguninn 7. október 2008, samkvæmt neyðarlögunum sem Alþingi hafði samþykkt kvöldið áður, þurrkaðist út langstærsta eign Samsonar eignarhaldsfélags. Eignarhlutur félagsins í Landsbankanum hafði áramótin áður verið metinn á rúmlega 78 milljarða króna í reikningum félagsins.

Samson eignarhaldsfélag sótti um greiðslustöðvun sama dag. Skiptastjóri hefur nú umsjón með þrotabúi Samsonar.

Í frétt Morgunblaðsins 24. júlí 2009 er haft eftir Helga Birgissyni, skiptastjóra, að tekið gæti allt að fimm ár að ljúka skiptum á þrotabúi Samsonar vegna stærðar og umfangs þrotabúsins og vegna eðlis eignanna.

Í fréttinni segir:

„Lýstar kröfur í þrotabúið hafa lækkað og eru í dag um áttatíu milljarðar króna. Þýski bankinn Commerzbank og suðurafríski bankinn Standard eiga kröfur samtals upp á 52,2 milljarða króna.

Eignir þrotabúsins sem eru fastar í hendi eru hins vegar aðeins um 2,3 milljarðar. Þessi upphæð gæti þó hækkað því Samson er með kröfulýsingu í þrotabú Landsbankans í Lúxemborg, á hlutdeild í vogunarsjóði, eignarhlut í Novator Properties og eignarhlut í hafnarverkefni í Pétursborg í Rússlandi, auk fleiri eigna. Þrotabú Samsonar á einnig stóra kröfu á Eimskip og verður hluthafi í hinu nýstofnaða hlutafélagi um starfsemi Eimskips.“

Hægt er að lesa meira um sögu og örlög Samsonar hér.