Þrír hópar valdir
Eftir fyrstu kynningarfundina voru þrír hópar valdir til áframhaldandi viðræðna um hlutinn í Landsbankanum. Framkvæmdanefnd um einkavæðingu sendi frá sér tilkynningu á ensku þess efnis í lok júlímánaðar. Það voru Samson hópur þeirra þremenninga, S-hópur fyrrverandi Samvinnufyrirtækja og loks hinn norðlenski Kaldbaks hópur. Í lok ágúst voru boðaðir frekari kynningarfundir. Markmiðið var að kynna nánar starfsemi bankans án þess þó að láta í té innherjaupplýsingar. Eftir þá fundahrinu, og frekari skiptingu upplýsinga, var ráðgert að ganga til beinna viðræðna við einn aðila. Einkavæðingarnefnd hugðist fyrst og fremst líta til fjögurra atriða þegar kæmi að því að velja þann aðila: Fjárhagsstöðu, þekkingar og reynslu á fjármálamarkaði, hugmynda um staðgreiðsluverð og áforma varðandi rekstur. Á fundi með Samson hópnum hinn 28.ágúst kom meðal annars fram hjá formanninum að fjármögnun væri einn mikilvægasti liðurinn í ákvörðunartöku um það hver yrði valinn kjölfestufjárfestir. Rætt var um hvernig eignarhaldsfélagið yrði fjármagnað, hvaðan fjármagnið kæmi og eins hvert hlutfallið yrði milli láns og eigin fé.