Svar einkavæðingarnefndar

Í svarbréfi framkvæmdanefndar um einkavæðingu frá 5. Júlí 2002 kom fram að vilji væri fyrir því að taka upp könnunarviðræður við þremenningana. Jafnframt var tekið fram að ákveðið hefði verið að birta auglýsingu til að gefa öðrum sem áhuga kynnu að hafa tækifæri. Bent var á að í beinum viðræðum við fjárfesta um kaup á eignarhlut ríkisins í bönkunum yrði að gæta að jafnræði aðila. Slíkar viðræður yrðu því ekki teknar upp án þess að öðrum fjárfestum yrði jafnframt gefinn kostur á þátttöku.

Þegar þessi afstaða einkavæðingarnefndar lá fyrir sendu þremenningarnir samdægurs annað bréf og lýstu yfir því að þeir hefðu ákveðið að draga ósk sína um viðræður til baka að svo stöddu. Að þeirra mati væri ekki hægt að setjast að samningaborði við einn aðila á meðan auglýst væri eftir tilboðum frá öðrum í sama hlut. Því væri eðlilegast að bíða með viðræður þar til tilboðsfrestur rynni út. Sendu þeir fréttatilkynningu frá sér um þetta efni. Síðar, eftir að auglýsing einkavæðingarnefndar hafði birst þann 10. júlí, lýstu þremenningarnir í bréfi frá 25. júlí einnig áhuga á kaupum hlutar ríkisins í Búnaðarbankanum.