Stöðutaka bankanna með og á móti krónunni

Á árunum 2007 og 2008 keypti Kaupþing erlendan gjaldeyri fyrir 2.200 milljarða króna, fyrir bankann og hluthafa. Landsbankinn seldi á móti fyrir 2.280 milljarða króna og afganginn, um 80 milljarða króna, keypti Glitnir. Þetta kemur fram í heildarsamatekt á viðskiptum íslensku bankanna með gjaldeyri á þessum tíma. Rannsóknarnefnd Alþingis um hrunið ályktar í skýrslu sinni á eftirfarandi hátt:

„Það vakti athygli rannsóknarnefndarinnar að á því tæpa tveggja ára tímabili sem hér var til skoðunar var Kaupþing stór nettó kaupandi gjaldeyris á millibankamarkaði á meðan Landsbanki Íslands veitti miklu magni gjaldeyris út á markaðinn. Eins og fram kemur í kaflanum var Kaupþing ekki eingöngu að kaupa fyrir eigin reikning heldur einnig í miklum mæli fyrir hönd stærstu viðskiptavina sinna.

Frá því í nóvember 2007 og fram í janúar 2008 keyptu fimm innlend fyrirtæki, það er Exista, Kjalar, Baugur og tvö félög tengd Baugi, 1.392 milljónir evra í framvirkum samningum og stundarviðskiptum við íslensku bankana. Meirihluti þess gjaldeyris var keyptur af Kaupþingi. Þetta vekur óneitanlega athygli sérstaklega í ljósi þess að viðskiptin voru mjög umfangsmikil miðað við fyrri viðskipti flestra þessara fyrirtækja.

Sú staðreynd að afleiddur vaxtamunur á gjaldmiðlaskiptamarkaðnum fór niður í núll í mars 2008 var skýrt merki um þann verulega skort á erlendum gjaldeyri sem til staðar var hér á landi. Boðið var upp á að ávaxta evrur nánast á krónuvöxtum sem hefði undir öllum venjulegum kringumstæðum átt að leiða til mikils innflæðis gjaldeyris. Þetta varð ekki. Krónan féll á hinn bóginn þegar erlendir aðilar tóku krónur sínar í auknum mæli út úr bönkunum þar sem afleiddir vextir á þeim voru orðnir þeir sömu og evruvextir. Þessum krónum var síðan skipt í evrur, sem leiddi til falls íslensku krónunnar. Seðlabanki Íslands reyndi að stemma stigu við þessari þróun með útgáfu innstæðubréfa og telja má líklegt að það hafi að einhverju leyti spornað við frekara falli krónunnar. “ (Kafli 13.7. Gjaldeyrismarkaður.)

Í skýrslunni rannsóknarnenfdarinnar kemur fram að Exista hafi hagnast um 80 milljarða króna á stöðutöku gegn krónunni og eftir að dómur féll í Hæstarétti um ólögmæti gengistryggðra bílalána var fjallað um það sérstaklega í fréttum að Exista tók stöðu gegn krónunni á sama tíma og dótturfélag þess, Lýsing, hélt gengistryggðum bílalánum að viðskiptavinum sínum.

Kaupþing

Í árslok 2007 átti Kaupþing andvirði 364 milljarða króna í erlendum gjaldeyri, sem þýddi að allt eigið fé bankans var varið fyrir gjaldeyrisáhættu. 30% af starfsemi Kaupþings var á Íslandi, þannig að nóg var að eiga 70% af eigin fé í erlendum gjaldmiðlum til að verjast gengissveiflum. Því má með rökum halda því fram að 30% af gjaldeyri Kaupþings, eða ríflega 100 milljarðar króna, hafi í ársbyrjun verið stöðutaka gegn krónunni

Á árinu 2008 keypti Kaupþing fyrir sig og viðskiptavini sína erlendan gjaldeyri og greiddi fyrir hann 540 milljarða íslenskra króna. Það var Landsbankinn sem seldi Kaupþingi gjaldeyrinn.

Í lok annars fjórðungs 2008 var staða Kaupþings í erlendum gjaldeyri komin upp í 486 milljarða króna, eða 111% af eigin fé, og var á svipuðum slóðum þegar bankinn féll. Því má segja að Kaupþing hafi aukið stöðutöku sína gegn krónunni á árinu 2008.

Þá er rétt að fram komi að Kaupþing aðstoðaði stærstu hluthafa sína við að taka gríðarlegar stöður gegn krónunni eins og margoft hefur komið fram í fréttum. Tveir af stærstu hluthöfum í bankanum, Kjalar og Exista, tóku samtals um 600 milljarða stöðu gegn íslensku krónunni. Nú standa yfir málaferli um uppgjör þessara gjaldmiðlaskiptasamninga.

Kaupþing hefur ávallt réttlætt þessi viðskipti sín með þvi að vísa til þess að vaxtastefna Seðlabankans hafi valdið óeðlilega háu gengi íslensku krónunnar, sem hlyti að taka enda. Kaupþing hafi séð fallið fyrir og tekið viðskiptalegar ákvarðanir byggðar á því mati. Á hinn bóginn má segja að útfrá hagsmunum íslenska fjármálakerfisins, og þar með Kaupþings, hefði verið æskilegra að bankinn hefði tekið þátt í að verja krónuna falli. Upphæðir voru slíkar að ljóst hefði mátt vera að gjaldeyrisskiptasamningarnir hefðu aldrei getað verið gerðir upp, eins og komið hefur í ljós síðan.

Af þessu má ljóst vera að Kaupþing tók gríðarlega stóra stöðu gegn krónunni, fyrir hönd bankans og stærstu hluthafa hans.

Landsbankinn

Landsbankinn varði allt eigið fé sitt gegn falli krónunnar. 44% af starfsemi Landsbankans var á Íslandi, þannig að 56% vörn hefði átt að duga. Því má með sömu rökum og í tilfelli Kaupþings segja að hann hafi tekið stöðu gegn krónunni þó svo hann hafi á sama tíma verið að verja hana með kaupum á henni. Landsbankinn var ekki aðstoða viðskiptavini sína í sama mæli og Kaupþing við stöðutöku gegn krónunni og heldur ekki fyrir hluthafa sína.

Lífeyrissjóðir

Í skýrslu rannsóknarnefndar er fjallað um viðskipti með íslensku krónuna á árinu 2008. Þar kemur fram að lífeyrissjóðir hafi verið virkir þátttakendur í þessum viðskiptum í gegnum Kaupþing. Í skýrslunni segir:

„…ljóst (er) að lífeyrissjóðir landsins voru stærstu seljendur erlendrar myntar framvirkt á árinu 2008, sérstaklega hjá Kaupþingi og Glitni. Lífeyrissjóðir hafa í auknum mæli gert framvirka gjaldeyrissamninga til að tryggja sér ákveðið verð á íslenskum krónum fram í tímann á erlendum eignum sínum, sökum þess að útgjöld sjóðanna eru ávallt í íslenskum krónum. Þannig hafa þeir varið afkomu sína fyrir skammtímasveiflum á gjaldeyrismarkaði. Það vekur hins vegar athygli að þessar varnir jukust þegar krónan veiktist, eins og augljóst er á mynd 45 sem sýnir stöðu framvirkra samninga lífeyrissjóða landsins. Staðan á samningunum fór úr um -900 milljónum evra um mitt sumar 2007 í -2,2 milljarða evra við fall bankanna. Þessi aukning gefur til kynna að þessum vörnum hafi verið stýrt á virkan hátt í stað þess að ákveðið fast hlutfall erlendu eignarinnar hafi verið varið. Ummæli stjórnenda sjóðanna skjóta einnig stoðum undir þá ályktun, sjá nánar í kafla 13.0. Það er því ljóst að þessir lífeyrissjóðir væntu þess að íslenska krónan ætti eftir að styrkjast. Skoðanir á því hvort lífeyrissjóðir eigi að verja erlendar eignir sínar fyrir gjaldeyrissveiflum eru mismunandi, en hvað sem því líður telur rannsóknarnefnd Alþingis það umhugsunarvert að lífeyrissjóðirnir sem kannaðir voru hafi aukið varnir þegar krónan tók að veikjast, sem bendir til þess að sjóðirnir, sem eiga að vera með langtímafjárfestingarmarkmið, hafi verið að vonast eftir skjótfengnum ágóða á gjaldeyrismarkaði.“ (Kafli 21. Orsakir falls íslensku bankanna – ábyrgð, mistök og vanræksla.)