Sterkir við eðlilegar aðstæður

Fyrrum stjórnendur Landsbankans halda því fram með rökum að íslensku bankarnir hafi óstuddir staðið lengur af sér storm lausafjárkreppunnar en margir af stærstu bönkum heims sem lengi vel voru taldir þeir traustustu. Má þar nefna bandarísku bankana IncyMac, Washington Mutual, Bear Stern og að ógleymdum Lehman Brothers. Í Evrópu var Hróarskeldubankinn í Danmörku búinn að fá björgunarhringinn áður en brimaldann skall á Íslandsstrendur og í BENELUX löndunum höfðu fjármálafyrritæki á borð við Fortis, ING, KBC og Dexia þegar fengið aðstoð frá hinu opinbera. Í afar athygliverðu erindi sem Ingimundur Friðriksson samdi þegar hann enn gegndi starfi bankastjóra Seðlabanka Íslands, en af óviðráðanlegum ástæðum gat ekki flutt, er víða komið við um ástæður hruns íslenska bankakerfisins og aðdraganda þess. Þar segir m.a.:

“Augljóst er að bankarnir voru orðnir of stórir miðað við stærð íslenska þjóðarbúsins. Þeir nýttu sér laga- og regluumhverfi, gott lánshæfismat og einstaklega hagfelld skilyrði á alþjóðlegum mörkuðum til mjög hraðs vaxtar.Hin evrópska umgjörð gerði þetta kleift. Við eðlileg skilyrði á fjármálamörkuðum gat þetta gengið og bankarnir hefðu getað ráðið við fjármögnun starfsemi sinnar jafnvel þótt kjör á mörkuðum hefðu orðið lakari en þegar þau voru best.”

En þó svo segja megi að íslensku bankarnir og íslenska fjármálaumhverfið hafi getað blómstra í eðlilegu umhverfi er það hlutverk stjórnenda og stjórnarmanna sem gæta eiga hagsmuna þeirra sem hafa fjárfest í fyrirtækjum að búa svo í haginn að fyrirtæki geti tekist á við óeðlilegar aðstæður. Frá sjónarhóli hluthafa og stjórnarmanna í fjármálafyrirtækjum er helsti lærdómurinn sá að ekki dugði að horfa til stöðu félaganna einvörðungu því yfirsjónin var að greina ekki til fullnustu veikleikana í sérstöðu íslenska fjármálakerfisins, – sem var smæð samfélags í samanburði við stærð bankanna, – smæð og veikleiki eftirlitskerfis, smæð og veikleiki stoðkerfis þ.m.t. seðlabanki og stjórnsýslu og að síðustu smæð og veikleiki myntar og peningakerfis.