Hrunið var dýrt – eignir rýrnuðu

Ísland, Íslendingar og íslenska hagkerfið varð fyrir ítrekuðum árásum úr ólíkum áttum í aðdraganda og í kjölfar hrunsins. Í hvert sinn rýrnuðu eignir, – verðmæti hurfu. Fyrsta árásin var lausafjárkreppan sem skall á 2007. Samantekt JP Morgan á rýrnun markaðsverðmæta nokkurra fjármálafyrirtækja sem þó lifðu kreppuna af segir sína sögu. Frá vordögum 2007 hrapar markaðsverðmæti banka á borð við Bank of America, Goldman Sachs, HSBC, Barcleys, JP Morgan þannig að eftir standa 5% – 45% af verðmætum þeirra þegar kauphöllum var lokað 20. Janúar 2009. Verðmæti í Kauphöll Íslands rýrnuðu verulega frá 2007 og fram undir hrun og nam það hundruðum milljarða íslenskra króna.

Önnur árásin á íslensk verðmæti var við yfirtöku bankanna. Þar hurfu eignir hluthafa að verðmæti yfir 600 milljarða króna. Þriðja árásin á eignir varð á eignasafn bankanna. Fyrrum bankastjórar Landsbankans gerðu skilanefnd bankans grein fyrir því að eignasafn hans hefði rýrnað um fjörðung bara við það að vera yfirtekinn (Sjá skýrslu þeirra, bls. 20-21). Endurhverfir samningar voru hirtir upp í skuldir og seldir á brunaútsölu, víkjandi lán urðu að engu og verðmæti dótturfélaga hvarf. Bankastjórarnir áætluðu að nærri 1000 milljarðar íslenskra króna hafi horfið úr eignasafni Landsbankans þann 7. Október 2008.  

Íslenska krónan olli einnig árásum á verðmæti eigna. Í raun voru árásirnar tvær, – sú fyrri í mars 2008 og hin síðari í hruninu. Eins og sjá má hér þá rýrna eignir í íslenskum krónum gagnvart evru um 101%, sterlingspundi um 41%, bandaríkjadal um 94% og 165% gagnvart japönsku jeni. Þetta er sú árás sem farið hefur verst með almenning á Íslandi því fjölmargir höfðu tekið gengistryggð íbúða- og bílalán og því kemur rýrnunin beint niður á þeim.

Síðasta árásin á eignir í íslenska hagkerfinu var síðan verðfall á hlutabréfum í öðrum íslenskum fyrirtækjum sem tengdust ekki beint fjármálafyrirtækjunum en heildarverðmæti fyrirtækja á borð við Marel, Össur, Actavis, Eimskip og fleiri lækkaði svo nam tugum og jafnvel hundruðum milljarða.

Þegar spurt er um hvert peningarnir hafi farið þá eru helstu svörin að finna í þeirri gríðarlegu rýrnun eigna sem átti sér stað í hruninu, aðdraganda þess og eftirmálum. Það var til þess að koma í veg fyrir þessa uppgufun verðmæta sem nær allar ríkisstjórnir á Vesturlöndum lögðu áherslu á að koma í veg fyrir hrun bankanna.