Barnið óx en brókin ekki
Íslenska bankakerfið hrundi í mestu fjármálakreppu sem gengið hefur yfir heiminn í nærri áttatíu ár. Hinir alþjóðlegu íslensku bankarnir voru orðnir of stórir fyrir þær íslensku undirstöður sem þeir stóðu á og því fékkst ekki við aðstæður ráðið á haustdögum 2008. Barnið hafði vaxið en brókin ekki stækkað.
Íslenska bankakerfið hrundi í mestu fjármálakreppu sem gengið hefur yfir heiminn í nærri áttatíu ár. Hinir alþjóðlegu íslensku bankar voru orðnir of stórir fyrir þær undirstöður sem þeir stóðu á og því fékkst ekki við óeðlilegar aðstæður ráðið á haustdögum 2008. Barnið hafði vaxið en brókin ekki. Þegar ástæður hrunsins eru greindar kemur oftast í ljós samspil ólíkra þátta eins og þátttakendur jafnt sem áhorfendur hafa bent á. Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis segir:
„Skýringar á falli Glitnis banka hf., Kaupþings banka hf. og Landsbanka Íslands hf. er fyrst og fremst að finna í örum vexti þeirra og þar með stærð þeirra þegar þeir féllu í október 2008.“
Þar segir jafnframt:
„Þegar bankakerfið var orðið allt of stórt miðað við stærð íslensks hagkerfis þurftu stjórnvöld að bregðast við. Grípa hefði þurft til aðgerða í síðasta lagi á árinu 2006 til þess að eiga möguleika á að koma í veg fyrir fall bankanna án þess að það kæmi verulega niður á verðmæti eigna þeirra. Hvorki á því ári né því næsta lögðu stjórnvöld með afgerandi hætti að bönkunum að minnka efnahagsreikning sinn.“
Rannsóknarnefnd Alþingis úrskurðar ekki um hvort með öðrum viðbrögðum á haustmánuðum 2008 hefði verið hægt að koma í veg fyrir hrun kerfisins. Ástæða þess að bankarnir féllu þegar þeir féllu var skortur á lausafé í viðurkenndum alþjóðlegum gjaldmiðli. Nóg var til í bönkunum af lausafé í íslenskum krónum en þær voru hvergi gjaldgengar. Ein ástæða þess að hrunið olli miklu tjóni og eignatapi var sú að íslensku bankarnir tóku of mikla áhættu í útlánum og önnur ástæða var veik stjórnsýsla með takmarkaða reynslu og þekkingu á alþjóðlegri fjármálastarfsemi. Því skorti forsendur til aðgerða sem tryggðu best verðmæti eigna bankanna. Einnig ríkti vantraust milli þeirra aðila sem mest mæddi á og hvergi fannst sá aðili sem hafði þá reynslu, stöðu eða náðarvald til að taka forystu um sameiginlegar aðgerðir.
Í ágúst 2010 setti Þórarinn G. Pétursson í samvinnu við Þórarinn Tjörva Ólafsson saman áhugaverðan fyrirlestur um hið fjármálalega gjörningaveður 2007 – 2008. Þeir félagar sem báðir eru starfsmenn Seðlabanka Íslands reyndu að svara spurningunni “Af hverju fauk Ísland um koll en önnur lönd sluppu betur?“ Svar þeirra er að miklar lántökur einkageirans, stórt bankakerfi, verðbólga og viðskiptahalli hafi skipt sköpum á Íslandi.
Óhóf og bruðl sem einkenndi fjármálaveröldina á árunum 2005 til 2008 var ekki séríslenskt fyrirbæri. Í Viðauka 1 í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er hins vegar bent ítrekað á að forsvarsmenn íslensku fyrirtækjanna hefðu ekki skilið að nálægðin og smæðin í íslensku samfélagi settu önnur mörk en þekktust í milljónasamfélögum. Viðmið forystumanna fjármálalífsins voru ekki lengur sniðin að íslensku samfélagi og þar með sögðu menn sig úr því samfélagi upp að vissu marki. Óhófið átti rætur að rekja til þess að offramboð var á fjármagni sem gerði það ódýrt og það fór hraðar um hagkerfi heimsins en áður hafði þekkst. Þess vegna skulduðu menn mikið í þeirri trú að verðmæti eigna myndi halda áfram að hækka. Menn töldu sér trú um að þeir væru auðugir og ljóst er að í þeirri vitundarþoku fór margt úr böndum. Þegar lausafé fór þverrandi lækkaði verðmæti eigna en skuldirnar stóðu eftir. Þokunni létti. Eftir stendur að erfitt er að sjá hvernig óhófið og bruðlið eitt og sér orsakaði hrun bankanna á Íslandi eða annars staðar. Engu að síður eru afleiðingar hrunsins alvarlegri vegna þess hversu lánaboginn var víða hátt spenntur.
Á þessum vef um Hrunið má finna samantektir sem varpa ljósi á orsakir og afleiðingar og þá er hér einnig ítarleg atburðarás þar sem greint er frá því sem gerðist dag frá degi eftir því sem aðgengilegar heimildir herma. Sumt að þessu er að finna í skýrslu rannsóknarnefndar Aþingis, annað ekki. Nær öll þau gögn sem hér eru birt voru send rannsóknarnefnd Alþingis eða henni veittur aðgangur að þeim þó svo ekki sé þau öll að finna í útgefnum gögnum nefndarinnar. Tilgangur þessa vefs er að deila með gestum aðgengilegum upplýsingum um hrunið. Hér er ekki ætlunin að segja allan sannleikann enda er hann aðstandendum þessa vefjar ekki að fullu ljós. Jafnframt er það verkefni samtímanum ofviða og bíður líklega komandi kynslóða.