Hávaxtastefna Seðlabankans var einn helsti valdur hrunsins
Hávaxtastefna Seðlabankans í umboði íslenska ríkisins var meginvaldur að hruni krónunnar og hún margfaldaði lausafjárvanda íslensku bankanna vegna lausafjárvanda á alþjóðlegum mörkuðum. Því er hún ein helsta orsök þess vanda sem Íslendingar glíma nú við. Það voru hagstjórnarleg grundvallarmistök stjórnvalda að halda úti hér hávaxtastefnu.
Hávaxtastefnan orsakaði fjölmargt í íslensku efnahagslífi. Hún skapaði óeðlilega hátt gengi íslensku krónunnar og gerði innflutning óeðlilega ódýran og ýtti þannig undir þenslu, fremur en að draga úr henni. Slík stefna gengur ekki upp í opnu hagkerfi, þar sem fjármagnsflutningar milli landa eru frjálsir.
Í stað þess að taka lán hér á landi á háum vöxtum tóku landsmenn (bankar, fyrirtæki og einstaklingar) lán erlendis. Erlendur gjaldeyrir flæddi inn í landið í gegnum svokölluð vaxtamunarviðskipti, þar sem erlendir fjárfestar keyptu krónur sem báru himinháa vexti og tóku til þess lán erlendis á mun lægri vöxtum. Þetta voru hin svokölluðu jöklabréf. Þannig skapaðist mikill viðskiptahalli og skuld sem einhvern tímann þurfti auðvitað að greiða.
Ábyrgðin á þessari stefnu, sem hefur kostað samfélagið hundruð milljarða króna, er að mestu löggjafans. Lögum um Seðlabanka Íslands var ekki breytt þótt löngu væri orðið ljóst í hvað stefndi og margir sérfræðingar hefðu bent á það, m.a. Ragnar Árnason prófessor í hagfræði og Gunnar Haraldsson forstöðumaður Hagfræðistofnunar HÍ.
Skynsamir fjárfestar sáu fyrir að þessi mikli viðskiptahalli gæti ekki orðið viðvarandi og sáu því fyrir hrun krónunnar. Þeir tóku því stöðu gegn krónunni í stórum stíl, sem aftur flýtti fyrir hruninu.
Björgólfur Thor Björgólfsson talaði fyrir upptöku annarra mynta og gagnrýndi stjórnvöld (fjármálaráðherra og Seðlabanka) þegar þau með útgáfu reglugerðar komu í veg fyrir að fjármálafyrirtæki gætu skráð hlutabréf sín í Kauphöll Íslands i evrum og þannig dregið úr þeirri áhættu sem fylgdi íslensku krónunni.