Fimm hópar sýna áhuga

Að tilkynningarfresti loknum 25. júlí kom í ljós að fimm fjárfestahópar eða félög lýstu yfir áhuga á að kaupa að lágmarki fjórðungshlut í bönkunum. Í fréttum fjölmiðla er greint frá því að þremenningarnir sem síðar voru kenndir við Samson sýndu áhuga (sjá bréf), einnig Þórður Magnússon fyrir hönd fjárfesta og síðan sendu eignarhaldsfélagið Andvaka, eignarhaldsfélagið Samvinnutryggingar, Fiskiðjan Skagfirðingur, Kaupfélag Skagfirðinga, Samskip og Samvinnulífeyrissjóðurinn  inn sameiginlegt erindi. Þá sendi Íslandsbanki inn hið fjórða og loks lýsti fjárfestingarfélagið Kaldbakur yfir  áhuga  en það var í meirihlutaeigu KEA, Samherja og Lífeyrissjóðs Norðurlands. Fram kom hjá Ólafi Davíðssyni formanni einkavæðingarnefndar að fimm erindi væru nokkru meira en búist hefði verið við. Valgerður Sverrisdóttir viðskiptaráðherra vildi í fréttum Ríkissjónvarpsins þennan sama dag ekki fullyrða að bankarnir yrðu seldir. ,,Það ætla ég ekki að fullyrða á þessari stundu því við vorum fyrst og fremst að óska eftir viðbrögðum og athuga um áhuga.“

Fundir einkavæðingarnefndar með fjárfestahópunum fimm voru svo boðaðir 29 og 30. Júlí. Þar var gert ráð fyrir því að hóparnir kynntu nánar hugmyndir sínar og forsendur um kaup.