Einkavæðingarnefnd vissi ekki af sölu VÍS

Í svarbréfi einkavæðingarnefndar kom fram að nefndinni hefði ekki verið kunnugt um þá ákvörðun stjórnenda Landsbankans að selja hlutinn í VÍS. Hins vegar hefði nefndinni, eins og öðrum sem fylgdust með á markaði, verið ljóst að forsvarsmenn LÍ hefðu um nokkurt skeið haft áhuga á að selja bréf bankans í VÍS og hefðu í því skyni boðið þau til sölu á markaði. Það væri hins vegar ekki hlutverk nefndarinnar að hafa afskipti af einstökum ákvörðunum er vörðuðu stjórnun og rekstur Landsbankans. Ríkið væri hluthafi í bankanum en hefði einungis afskipti af málum félagsins með þátttöku á hluthafafundum. Sala hlutabréfanna í VÍS hefði ekki verið rædd á fundum nefndarinnar með hópunum þremur og enginn trúnaður verið brotinn.