Einkavæðing Landsbanka Íslands

Samson eignarhaldsfélag ehf. fékk að kaupa 45,8% hlut í Landsbanka Íslands hf. með samningi sem var undirritaður 31. 12. 2002. Kaupverðið, 12,3 milljarðar króna, var greitt í þremur áföngum samkvæmt samningi og fjármagnað með eigin fé og lánum í samræmi við kröfu íslenska ríkisins.

Einkavæðing bankanna hófst árið 1998. Um einkavæðingu ríkisfyrirtækja sá ráðherranefnd um einkavæðingu, en á vegum hennar starfaði svokölluð framkvæmdanefnd um einkavæðingu. Í ráðherranefndinni sátu Davíð Oddsson forsætisráðherra, Geir H. Haarde fjármálaráðherra, Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra og Valgerður Sverrisdóttir viðskiptaráðherra.

Eins og fram kemur hér á þessum vef í umfjöllun um feril einkavæðingar hafði ríkisstjórnin ákveðið að selja umtalsverðan hlut í LÍ til kjölfestufjárfestis árið 2001. Leitað hafði verið tilboða frá erlendum bönkum, án árangurs. Samson kom til sögunnar ári seinna.

Samson eignarhaldsfélag var ekki hæstbjóðandi, en sérfræðingar á vegum HSBC-bankans breska mátu þá þrjá hópa sem komust í gegnum forval þann 25. júlí 2002 og framkvæmdanefndin samþykkti það mat.

Sigríður Dögg Auðunsdóttir segir í einkavæðingarúttekt sinni í Fréttablaðinu að Björgólfur Thor Björgólfsson hafi hitt starfsmann HSBC í London vorið 2002 og komist að því að ekki stæði lengur til að selja hlut ríkisins í Landsbanka Íslands til kjölfestufjárfestis, heldur í dreifðu útboði. Björgólfur Guðmundsson hafi í kjölfarið hringt í Davíð Oddsson og lýst yfir áhuga á að kaupa Landsbankann eða Búnaðarbanka Íslands. Davíð hafi síðan beitt sér fyrir því að nýjar línur væru lagðar fyrir framkvæmdanefndina.

Steingrímur Ari Arason sendi bréf til forsætisráðherra 10. september 2002, þar sem alvarlegar ásakanir komu fram.

Í kjölfarið gerði Ríkisendurskoðun greinargerð um útboðið, þar sem kom fram að verklagsreglur um sölu ríkisfyrirtækja hefðu ekki verið brotnar. Þegar á heildina væri litið yrði ekki dregin önnur ályktun en að sú niðurstaða að áhugaverðast hefði verið að ganga til beinna viðræðna við Samson væri sannfærandi og eðlileg.

Hvað svo sem þessu öllu líður má ljóst vera, að Samson bar ekki ábyrgð á stjórnsýslunni í kringum einkavæðingu Landsbankans. Hér var um að ræða viðskiptatækifæri af því tagi sem engum er hægt að álasa fyrir að taka. Björgólfur Thor Björgólfsson hefur oft lýst yfir furðu á því hversu ógagnsætt einkavæðingarferlið var, en hann taldi tilboð Samsons engu að síður vera best, þegar litið væri til allra þátta.