Einkavæðing fer af stað

Það var yfirlýst markmið ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks að selja hluti ríkisins í Landsbankanum og Búnaðarbankanum. Árið 1997 voru stofnuð hlutafélög um bankana. Á árunum eftir lækkaði eignarhlutur ríkisins hægt og bítandi. Meðal annars voru 20% af hluta ríkissjóðs í Landsbankanum seld í almennu útboði í júní 2002. Ríkissjóður var þá ekki lengur meirihlutaeigandi þótt stærstur væri með 48%.

Samhliða sölu til almennra fjárfesta stefndu stjórnvöld að því  að fá öflugan kjölfestufjárfesti að Landsbankanum. Framkvæmdanefnd um einkavæðingu samdi við HSBC bankann í Lundúnum í júní 2001 um að sjá um sölu á 33 til 51% hlut. Einkum var leitað að erlendu fjármálafyrirtæki. Ekkert gekk í þessum þreifingum, meðal annars vegna erfiðra markaðsaðstæðna og í desember sama ár var málinu slegið á frest.