Ákvörðun Fjármálaeftirlits

Hinn 3. Febrúar 2003 barst ákvörðun Fjármálaeftirlitsins. Eftirlitinu var ætlað að leggja mat á það hvort umsækjandi teldist hæfur til að eiga virkan eignarhlut með tilliti til heilbrigðs og trausts reksturs.  Fjármálaeftirlitið skoðaði sérstaklega fyrirhugaða fjármögnun fjárfestingarinnar og fjárhagsstöðu umsækjenda. Eftirlitið sá að því loknu ekki ástæðu til að efast um hæfi Samsonar til þess að eiga umræddan hlut. Hvað varðaði þekkingu og reynslu umsækjendanna var heldur ekki talin ástæða til að gera athugasemdir. Ekki var heldur talin hætta á hagsmunaárekstrum á fjármálamarkaði í kjölfar kaupanna. Fjármálaeftirlitið tók einnig til skoðunar deilur þremenninganna og Ingimars H. Ingimarssonar um hlutafé Baltic Bottling Plant í Sankti Pétursborg sem verið höfðu í fjölmiðlum. Að mati eftirlitsins snérust þær deilur um einkaréttarlegan ágreining og hefðu því engin áhrif á umfjöllun þess um fyrirliggjandi umsókn. Ekkert hefði komið fram í málinu sem gæfi til kynna að það hafi áhrif á hæfi umsækjendanna. Þegar allt var saman tekið var það niðurstaða eftirlitsins að Samson væri vel hæft til að fara með eignarhlutinn.