Örsmá króna, ábyrgðarleysi og brask

Ekki hefur farið framhjá nokkrum manni að 10 ár eru liðin frá hruninu. Áratugur ætti að vera nógu langur tími til að menn nái skýrri sýn á atburði, en því miður eru sárin það djúp að fólk er enn að deila um orsakir og hverjir séu helstu sökudólgar og verða eflaust að því minnst 10 ár til viðbótar.

Í kjölfar hrunsins leit ég í eigin barm og horfði gagnrýninn á athafnir mínar. Mín leið til að takast á við þessa innri baráttu var að skrifa bók þar sem ég fór yfir sögu mína í viðskiptum, baslið í upphafi, ævintýralegan uppgang og ofurgróða, mistökin sem ég gerði, hrunið og hvernig mér tókst að vinna úr þeim hremmingum. Þetta var erfitt ferðalag, en ég tel það hafa styrkt mig og hjálpað mér að takast á við reiðina og biturleikann, sem ég fann fyrir í kjölfar hrunsins.

Einn af þeim þáttum, sem ég gagnrýndi sjálfan mig fyrir í kjölfar hrunsins, var að bregðast ekki við þeim hættumerkjum sem ég varð var við í umhverfinu. Þess vegna vil ég benda á þrjá þætti, sem voru einkennandi í íslensku efnahagslífi fyrir hrun og virðast setja svip sinn á stöðuna í dag:

1.       Smæsti gjaldmiðill heims

Í þeirri miklu þenslu, sem átti sér stað á örfáum árum fram að hruni, var ýmislegt sem leiddi til þess að bankarnir stækkuðu fram úr hófi og voru orðnir óviðráðanlegir fyrir lítið hagkerfi þegar að þrengdi haustið 2008. Allt blasir það við núna. Bankarnir höfðu nær ótakmarkað aðgengi að ódýru fé. Minnsti gjaldmiðill heims gat ekki staðið undir þeirri vaxtamunarstefnu, sem rekin var á Íslandi.

Jón Helgi Egilsson, þá doktorsnemi í peningahagfræði, orðaði það svo í viðtali við Viðskiptablaðið í september 2011:

„Að einhverjir hafi tekið stöðu gegn krónunni vegna þess að þeir töldu hana of sterka er ekki ástæða fyrir hruni hennar – ástæða fyrir hruni hennar er að styrkur hennar var tekinn að láni og lánveitendur vildu fá lán sín greidd til baka. Undirliggjandi ástæða var peningastefnan sem var rekin í formi vaxtamunar sem átti að laða fjármagn að til að styrkja gengið umfram eðlilegt jafnvægi. Slíkt fjármagn er ekkert annað en lán á óhagstæðum kjörum til að búa til falskt gengi – lán sem þarf að greiða til baka og veldur hruni á gjalddaga.“

Jón komst að þeirri niðurstöðu, að hrun krónunnar hafi haft lítið með útrás og fall íslensku bankanna að gera. Krónan hafi verið fallin áður en bankarnir féllu – og því miður væri sama stefna rekin enn.

Minnsti gjaldmiðill í heimi er viðkvæmur fyrir sveiflum og þegar illa fer súpa heimilin í landinu seyðið af því. Það er gömul saga og ný, en vonandi ekki um aldur og ævi. Í bók minni, Billions to Bust and Back, skrifaði ég um hættuna af krónunni. Þar segir, í íslenskri þýðingu:

Íslensk heimili urðu fyrir áföllum – það leikur enginn vafi á því. En áföll heimilanna stöfuðu fyrst og fremst af gengisfellingu krónunnar og skuldsetningu ríkisins, sem hækkaði allar álögur og gjöld, en ekki af bankahruninu sem slíku. Íslensku bankarnir eru orðnir sökudólgarnir fyrir miklu stærri kerfisvillur, bæði innanlands og á alþjóðasviðinu, en þetta er einkum vegna þess að það hentar bæði vinstri mönnum, því það staðfestir skoðun þeirra á kapítalismanum og opnaði þeim leið inn í ríkisstjórn, og þeim á hægri vængnum sem hafa leitast við að draga athyglina frá eigin mistökum í efnahagsstjórninni.

Það er dramatískt að leita að aðalleikurum í hruninu í hópi banka- og viðskiptamanna, en stóri skúrkurinn var krónan. Þar hafa menn ekkert lært, með núverandi hávaxtastefnu og verðtryggingu, sem sligar almenning.

2.       Lítil sem engin sjálfskuldarábyrgð

Þegar horft er til hrunsins má ekki bara velta vöngum yfir atburðum fyrir hrun heldur þarf líka að skoða hvað gerðist eftir hrun. Þar er ég stoltastur af skuldauppgjöri við alla lánardrottna mína, en ég var í gríðarmiklum, persónulegum ábyrgðum þegar hrunið skall á.  Þannig borgaði ég yfir 100 milljarða króna til íslenskra banka í beinhörðum peningum, meira að segja í erlendri mynt. Margfalt hærri upphæðir voru greiddar til erlendra banka. Í bók minni segir m.a., í íslenskri þýðingu:

[. . . ] á meðan Ísland var í frjálsu falli á síðustu fjórum vikum bólunnar, voru aðgerðir mínar algerlega andstæðar því sem flestir íslenskir kaupsýslumenn og gerendur viðskiptalífsins fóru í. Á Íslandi voru það alltaf sömu örfáu klíkurnar, innherjarnir á markaðinum, sem öllu réðu. Ég var alltaf aðkomumaður og hélst sem slíkur, jafnvel eftir að ég sneri aftur og varð á augabragði stærsti fjárfestir landsins. Maður hefði búist við að innanbúðarmenn tækju meiri persónulega ábyrgð en þeir sem koma utan frá þegar hætta stafar að landinu, en raunveruleikinn á Íslandi árið 2008 var einmitt á hinn veginn. Ég gekkst í miklar persónulegar ábyrgðir á lánum til félaga í minni eigu, á meðan flestir klíkubræðurnir reyndu að flýja persónulegar skuldbindingar með allskyns millifærslum sem margar hverjar, að ég tel, munu ekki standast skoðun íslenskra dómstóla.

Ég er alls ekki að draga upp þá mynd að allir séu vondir nema ég. Ég er aðeins að horfa á þetta frá öðru sjónarhorni. Mínar gjörðir stjórnuðust ekki af einhverri stórkostlegri óeigingirni, ég hélt einfaldlega að Ísland myndi standa af sér þetta fjármálaóveður og við kæmumst á endanum í höfn. Flestir hinna sögðu bara: „Það er ekki séns í helvíti.“ Þeir voru allir svartsýnismenn, en það er eitthvað sem ég verð seint sakaður um að vera.“

Það þarf ekki að hafa mörg orð um hvaða augum dómstólar hafa litið ýmis verk klíkubræðranna.

Þegar skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um bankahrunið kom út, í apríl 2010, var ég löngu búinn að átta mig á að ég hafði gert mörg mistök. Ég birti því afsökunarbeiðni til Íslendinga í Fréttablaðinu, þar sem ég baðst afsökunar á mínum þætti í eigna- og skuldabólunni og á andvaraleysi mínu gagnvart þeim hættumerkjum sem hrönnuðust upp. Mér auðnaðist ekki að fylgja hugboði mínu þegar ég þó kom auga á hættuna.

Ég reiknaði með að aðrir fylgdu í kjölfarið og bæðust afsökunar á hlut sínum í aðdraganda hrunsins. Ég varð alveg gáttaður þegar enginn brást við. Ekki bissnissmenn, ekki bankamenn, ekki embættismenn, ekki eftirlitsaðilar, ekki fjölmiðlamenn, ekki þingmenn, ekki ráðherrar, ekki fyrrverandi stjórnendur Seðlabankans. Það var enginn annar sem baðst afsökunar! Þannig urðu aldrei til nein drög að sáttum þegar samfélagið þurfti mest á því að halda.

3.       Brask og brall

Braskið byrjaði í raun áður en gömlu ríkisbankarnir voru einkavæddir. Þannig hefur t.d. verið upplýst að í blekkingarleiknum með aðkomu þýska bankans Hauck & Aufhäuser í Búnaðarbankanum var sett upp flétta, sem tryggði Ólafi Ólafssyni og félaginu Dekhill Advisors 11 milljarða króna á núvirði. Því er  vandlega haldið leyndu fyrir skattrannsóknarstjóra hverjir eiga Dekhill Advisors, en ýmsir sem þekkja þokkalega til hafa hvíslað því að mér að þar að baki séu stærsti hluthafi og æðstu stjórnendur Kaupþings.

Margar ákvarðanir í aðdraganda hrunsins voru teknar í fumi, fáti og af yfirgripsmikilli vanþekkingu. Jafnvel þótt búið sé að upplýsa hvað þáverandi forsætisráðherra og seðlabankastjóra fór á milli í símtali þar sem gengið var frá því að Kaupþing fengi gjaldeyrisvarasjóð landsins afhentan, þá er ákvörðunin eftir sem áður alveg jafn óskiljanleg. Og tap þjóðarinnar jafn stórt.

Upphaf og endir sögu bankanna í uppgangi og hruni markast af óskýrðu braski Kaupþingsmanna. Þeir keyptu Búnaðarbankann með því að segja ósatt um aðkomu þýsks banka. Og þeim tókst líka að bjaga allar björgunartilraunir í ráðherrabústaðnum dagana fyrir hrun með því að segja ósatt um aðkomu Al-Thani. Sú stóra lygi varð til þess að Kaupþing virtist sterkari banki en hann í raun var. Hæstiréttur fjallaði um það mál og sagði brot Kaupþingsmanna „þaulskipulögð, drýgð af einbeittum ásetningi og eindæma ófyrirleitni og skeytingarleysi.“ Það má því segja að tvær stærstu ákvarðanir ríkisstjórnar Íslands varðandi Kaupþing/Búnaðarbankann séu byggðar á blekkingum. Bæði árið 2002 og 2008. Það ætti því ekki að koma á óvart að fyrrverandi forsætisráðherra upplifi að hann hafi verið blekktur til að afhenda gjaldeyrisforða þjóðarinnar.

En braskið er allt í kringum okkur í dag. Kvótagreifar setja nýtt met í arðgreiðslum og gefa almenningi fingurinn, á meðan margir þingmenn streitast við að finna leið sem tryggir að útgerðin greiði sem allra minnst fyrir aðgang sinn að þjóðareign. Af hverju rennur arðurinn af auðlindinni ekki í sameiginlegan sjóð þjóðarinnar, eins og arður Norðmanna af olíuvinnslu? Enginn lærdómur þar.

Og nýjustu dæmi af útgerðarbraski sýna, að enn og aftur eru menn að kaupa fyrirtæki og selja þau svo aftur fyrirtækjum sem skráð eru á markaði og innleysa þannig gríðarmikinn hagnað á stuttum tíma. Slík viðskipti minna á ítrekaðar sölur á Sterling flugfélaginu heitna, sem var svo eftirsótt að sömu menn börðust um að eiga það til skiptis. Þessi herlegheit eru síðan fjármögnuð af banka í eigu ríkisins. Ég spyr bara: Eru þessir kvótagreifar í persónulegum ábyrgðum fyrir skuldbindingum sínum? Ef ekki, þá er geggjunin ennþá algjör.

Nú velti ég því fyrir mér, hvað þeim gengur til sem sjá hættumerkin um allt en stinga bara höfðinu í sandinn og láta sem ekkert sé. Sama krónustefnan er rekin áfram, með himinháum vöxtum fyrir almenning, af fólki sem á að vita betur. Þar hefur lærdómurinn ekki skilað sér.

Fyrst eftir hrun virtust allir af vilja gerðir til að læra af því og þeim mistökum sem gerð voru. Ýmsar hugmyndir komu fram um hvernig breyta mætti kerfinu og bæta, til að tryggja að aldrei aftur yrði hrun. Þær breytingar hafa verið fáar og smáar.

Var ekki haft eftir Albert Einstein að það væri beinlínis skilgreining á brjálæði að gera sama hlutinn aftur og aftur, en búast við annarri niðurstöðu?

Bók mína er hægt að nálgast á vef Amazon.com, sjá hér.