Félagsleg samkeppnishæfni þjóða
Margir fremstu vísinda- og fræðimanna heims á sviði samkeppnishæfni þjóða og stefnumótunar fyrirtækja koma saman á alþjóðlegri ráðstefnu í Hörpu hinn 28. apríl nk. Þar fer fremstur í flokki Michael Porter, prófessor við Harvard háskóla, en hann er talinn einn áhrifamesti hugsuður heims á sviði viðskipta. Fyrirtæki mitt, Novator, er stoltur styrktaraðili ráðstefnunnar og ég hlakka til að heyra framlag fræðimannanna um nýja aðferð til að meta samfélög manna.
Fundarefni ráðstefnunnar er þessi nýja aðferð, sem kallast mælikvarði um gæði samfélagsinnviða (Social Progress Index). Auk Michael Porter koma hingað t.d. Matthew Bishop, ritstjóri alþjóðamála hjá The Economist, Martha Minow, deildarforseti lagadeildar Harvard háskóla og Michael Green, stjórnandi The Social Progress Imperative, sem stendur að hinum nýja mælikvarða. Meðal þátttakanda af hálfu Íslands eru Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, Liv Bergþórsdóttir, forstjóri Nova, og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.
Hugmyndafræðin að baki Social Progress Index mælikvarðanum er að setja á oddinn það sem skiptir tilveru fólks mestu máli, þar á meðal er aðgangur að heilsugæslu og menntun, staða jafnréttismála og trúfrelsi. Hingað til hefur gjarnan verið einblínt á verga landsframleiðslu til að mæla efnahagslega velgengni þjóða, en sú mæling er augljóslega mjög takmörkuð.
Tæki til breytinga í heiminum
Michael Green var í ítarlegu viðtali við Markaðinn, viðskiptafylgirit Fréttablaðsins, hinn 17. febrúar sl. Þar sagði hann m.a.: „Við hófum ekki þessa vegferð til þess að búa til mælistiku, heldur af því að við vildum koma á breytingum í heiminum. Fólkið að baki verkefninu er athafnamenn á sviði samfélagsmála, frumkvöðlar á sviði viðskipta og á sviði mannúðarmála. Þetta hefur alltaf snúist um hvernig hægt sé að koma á raunverulegum breytingum og SPI-kvarðinn er bara tæki til þess.“
Þá lýsti Green því yfir að ráðstefnan í Hörpu í vor væri mjög spennandi, því þar yrði tekið næsta skref, frá gagnaöflun til aðgerða. „Við vildum gera þetta á hverju ári, þar sem sífellt fleiri koma og stöðugt verða kynntar nýjar niðurstöður um hvernig gengur. Í Davos er talað um efnahagslega samkeppnishæfni en í Reykjavík er talað um félagslega samkeppnishæfni. Að því stefnum við.“
Inni á heimasíðu Social Progress Imperative er hægt að lesa nánar um ráðstefnuna og skrá sig til þátttöku.