Bandarískt fyrirtæki kaupir Nova
Bandaríska eignastýringarfyrirtækið Pt Capital Advisors hefur keypt allt hlutafélag í fjarskiptafyrirtækinu Nova. Ég kveð Nova, sem ég stofnaði fyrir 10 árum, með stolti yfir þeim góða árangri sem fyrirtækið hefur náð. Það er núna með mestu markaðshlutdeildina á íslenskum farsímamarkaði og samkeppnin sem fyrirtækið kom með inn á markaðinn hefur lækkað verð á símaþjónustu og bætt þjónustu.
Samningar um kaup Pt Capital Advisors voru undirrituð í höfuðstöðvum Nova við Lágmúla í dag – og að sjálfsögðu á rafrænan hátt á nýjan iPhone 7. Í kjölfarið var eftirfarandi fréttatilkynning send til fjölmiðla:
Bandaríska eignastýringarfyrirtækið Pt Capital Advisors hefur náð samningum við Novator um kaup á öllu hlutafé í fjarskiptafyrirtækinu Nova. Samningar eru háðir hefðbundnum fyrirvörum, en bæði kaupandi og seljandi eru bjartsýnir á að eigendaskipti gangi að fullu í gegn á næstu mánuðum. Kaupverðið er trúnaðarmál.
Pt Capital Advisors er dótturfélag Pt Capital. Fyrirtækið, sem er með aðsetur í Anchorage, Alaska, leggur megin áherslu á fjárfestingar á norðurslóðum. Félög innan Pt samstæðunnar sameina viðskiptasambönd sín og sérþekkingu í fjármálum til að fjárfesta í tækifærum í Alaska, norðanverðu Kanada, Grænlandi og Íslandi. Nova er fyrsta fjárfesting Pt Capital Advisors hér á landi.
Novator er fjárfestingafélag undir stjórn Björgólfs Thors Björgólfssonar. Novator stofnaði Nova árið 2006, en fyrirtækið tók til starfa í desember 2007. Á þeim tæpu 9 árum sem liðin eru hefur Nova náð mestri markaðshlutdeild fyrirtækja á íslenskum farsímamarkaði. Nova var fjármagnað frá grunni með eigin fé og hefur allan tímann verið að fullu í eigu Novators og stjórnenda Nova. Novator á tvö önnur fjarskiptafyrirtæki, Play í Póllandi og WOM í Chile, með 17 milljón viðskiptavini samtals.
Hugh S. Short, stofnandi og stjórnarformaður Pt Capital: „Fjárfesting Pt Capital Advisors á Íslandi fer saman við að nú horfir heimurinn til norðurslóða í leit að nýjum markaðstækifærum. Við teljum Nova hafa sýnt framúrskarandi árangur á íslenskum fjarskiptamarkaði undir forystu Novator sem stofnanda. Við ætlum okkur að styðja vel við stjórnendur og stefnu fyrirtækisins, þróa félagið inn á nýjar brautir og leggja áherslu á að viðskiptavinir Nova verði áfram ánægðustu viðskiptavinir í farsímaþjónustu á Íslandi.“
Björgólfur Thor Björgólfsson, stofnandi Nova: „Nova er sterkt fyrirtæki og ég er stoltur af uppbyggingu þess og þeim störfum sem það hefur skapað sl. áratug. Sú samkeppni, sem fyrirtækið veitti þeim sem fyrir voru á markaði, hefur leitt til lægri farsímakostnaðar og betri þjónustu hér á landi. Það er sérstaklega ánægjulegt að erlendir fjárfestar með reynslu af farsímamarkaði telji góðan kost að taka þátt í íslensku viðskiptalífi. Slík innspýting í íslenskan efnahag er afar mikilvæg.“
Liv Bergþórsdóttir, forstjóri Nova: „Við höfum átt frábært samstarf við Novator undanfarin ár og á sama tíma og við kveðjum þá, þá hlökkum við til nýrra tíma með nýjum eigenda. Við erum stolt af því að hafa byggt upp fyrirtæki sem hefur náð góðum árangri á íslenskum fjarskiptamarkaði og fjárfesting Pt í Nova er viðurkenning á árangri okkar og framtíðarsýn.“
Kvika banki leiddi söluferlið af hálfu seljanda. Íslensk verðbréf hf. veitti PT Capital Advisors ráðgjöf í tengslum við kaupin.