Tugmilljóna kostnaður lagður á hluthafa

Lögmenn í Reykjavík hafa stofnað málsóknarfélag um mál gegn mér. Lögmennirnir hafa um margra ára skeið velkst með málið, án þess að nokkuð markvert hafi komið fram. Lögmennirnir hafa borið háar þóknanir úr býtum.

Af opinberum gögnum má sjá að lögmennirnir hyggjast til viðbótar við þegar heimtar þóknanir hafa af málsóknarfélaginu 25 milljón krónur í þóknanir fyrir að reka mál um viðurkenningu bótaskyldu. Þetta ætla þeir sér jafnvel þótt málið tapist. Þá fá þeir að auki 5.000 krónur greiddar frá félaginu fyrir hvern félagsmann. Að auki verða félagsmenn að greiða allan annan kostnað vegna málsins, til dæmis vegna vinnu sérfræðinga sem lögmennirnir kalla að málinu. Þóknanir lögmanna og annar kostnaður við rekstur málsins mun því telja í milljónum tuga óháð niðurstöðu þess. Fái hluthafar skaðabætur dæmdar, sem mér virðist reyndar útilokað og verður ekki fjallað um í málinu sem nú á að höfða, ætla lögmennirnir sér 10% af dæmdum skaðabótum, ofan á allar þóknanir.

Málið er því gróðabrall lögmannanna sem hagnast óháð niðurstöðu málsins. Til að ganga í málsóknarfélagið þarf að greiða aðgangseyri, að lágmarki 5.000 krónur en stighækkandi eftir því hve marga hluti viðkomandi hluthafi átti.

Til að fá greiðslu þóknana sinna vilja lögmennirnir eðlilega lokka mikinn fjölda hluthafa til málsins. Því er e.t.v. ekki að undra að lögmennirnir séu tilbúnir að beita vafasömum meðölum.

Þeir freistuðust til að mæta í Kastljós í gærkvöldi í auglýsingaskyni þar sem þeir héldu fram röngum, ófullnægjandi og villandi upplýsingum. Þeir hafa, svo fátt eitt sé nefnt, ranglega haldið því fram að viðskipti Samsonar með hluti bankans hafi verið málamyndagerningar sem hafi aldrei verið efndir. Þá hafa þeir ranglega haldið því fram að Landsbankinn í Lúxemborg hafi verið eigandi hluta sem geymdir voru á vörslureikningi viðskiptavinar bankans. Þetta allt gera þeir til að lokka til sín viðskiptavini á röngum forsendum.

Þetta er óásættanlegt. Ætla má að þetta auglýsingaskrum lögmannanna brjóti í bága við 42. gr. siðareglna lögmanna. Ég hlýt að beina kvörtun vegna þessa til úrskurðarnefndar lögmanna.

Óskipt ábyrgð félagsmanna

Nái lögmennirnir fram vilja sínum og leggi mál fyrir dóm bera félagar málsóknarfélagsins óskipta ábyrgð á málinu gagnvart mér, samkvæmt samþykktum félagsins sjálfs. Verði mér dæmdur málskostnaður get ég því valið hvaða félagsmann sem er og krafið hann um allan kostnaðinn, ekki bara hlutdeild hans.

Þá bera félagsmenn óskipta ábyrgð á þóknun lögmannanna, 25 milljónum króna, auk alls annars kostnaðar við rekstur málsins sem getur talið í milljónum. Samningur við lögmenn gerir m.a. ráð fyrir kostnaði erlendis. Sá kostnaður er enn óskilgreindur, en félagsmenn bera samt óskipta ábyrgð á honum. Lögmennirnir geta krafið hvern og einn félagsmann um alla þóknun sína og allan kostnað af rekstri málsins, ekki bara hlutdeild hans.

En fjárhagsleg ábyrgð félagsmanna nær enn lengra en bara til kostnaðar við málareksturinn. Leiði rangar ásakanir lögmanna í minn garð til tjóns bera félagsmenn óskipta ábyrgð á hugsanlegum bótum. Þeir sem hafa hæst í málinu fría sig þannig ábyrgð á kostnað almennra hluthafa.