Framkvæmdir hefjast á Fríkirkjuvegi

Forsætisráðherra hefur samþykkt tillögu Minjastofnunar um friðun hússins að Fríkirkjuvegi 11. Ytra byrði hússins er friðað, sem og stórir hlutar innra byrðis. Undirritun forsætisráðherra var lokaáfanginn í ströngu og ítarlegu ferli, sem nauðsynlegt var til að hægt yrði að gera húsið upp og opna það almenningi. Framkvæmdir munu hefjast á næstu dögum.

Húsið að Fríkirkjuvegi 11 reisti langafi minn, Thor Jensen, en ég keypti það af Reykjavíkurborg árið 2007. Þá var ytra byrði hússins þegar friðað, en undanfarin ár hefur verið ítarlega fjallað um friðun innra byrðis af þar til bærum sérfræðingum og stjórnvöldum. Niðurstaða er nú fengin og nær friðun innra byrðis til gólfs, veggklæðninga og lofts í anddyri 1. hæðar; veggjaklæðninga og lofta í viðhafnarstofu og borðsal á 1. hæð; upprunalegs parketgólfs í viðhafnarstofu á 1. hæð, lofta í hliðarsal, setustofu og veitingaherbergi á 1. hæð; veggjaklæðninga á gangi 1. og 2. hæðar með fyrirvara um afturkræfa breytingu á aðalstiga og loks snyrtiklefa á neðri hæð bakstigahúss og bakstiga.

Innan skamms hefjast framkvæmdir við viðgerðir á ytra byrði hússins. Reistir verða vinnupallar, en þeir klæddir dúk með áprentaðri mynd hússins. Þetta er gert til að draga úr þeirri sjónmengun, sem verður óhjákvæmilega á framkvæmdatímanum. Húsið stendur í hjarta borgarinnar og því verður leitast við að allar framkvæmdir valdi sem allra minnstu raski á umhverfinu. Framkvæmdir innan húss munu fylgja í kjölfarið og verða í fullu samræmi við menningarsögulegt gildi hússins.

Endurgerð þessa merka 108 ára gamla húss er gríðarmikil framkvæmd og verður ekki unnin á einum degi. Ég vonast til að húsið verði orðið sannkölluð borgarprýði á ný sumarið 2016. Þá mun líf færast á ný í húsið. Það er löngu tímabært, því hús án lífs er einskis virði.