Enn óskað svara frá stjórn RÚV

Stjórn RÚV ohf. svarar ekki bréfum sem til hennar eru send, heldur felur öðrum að svara fyrir sína hönd. Þar með víkur hún sér undan lögboðnum skyldum sínum. Ég ákvað að láta reyna einu sinni enn á þessa afstöðu stjórnarinnar og sendi henni eftirfarandi bréf í síðustu viku, sem vonandi verður tekið fyrir á fundi hennar í þessari viku:

Í lok júní sl. sendi ég bréf á stjórn RÚV, ritstjóra Kastljóss og fréttamann í tilefni Kastljóssþáttar þriðjudaginn 23. júní þar sem gróflega var gengið gegn reglum stofnunarinnar sjálfrar um vönduð vinnubrögð. Í þættinum fékk lögmaður hópmálsóknarfélags að flytja einhliða mál gegn mér með vísanir í óbirta stefnu.

Viðbrögð RÚV voru að láta ritstjóra Kastljóss og fréttamanninn um að svara bréfinu. Það svar barst í lok júlí. Í því var enga afsökunarbeiðni að finna, eins og ég hafði farið fram á, heldur þvert á móti tekið undir að ég hefði gerst sekur um þau brot sem lögmaðurinn bar upp á mig. Er skörin farin að færast upp í bekkinn þegar fréttamenn reyna ekki einu sinni að dylja skýra afstöðu sína til ásakana annars aðila í dómsmáli.

Ég sendi nýtt bréf 24. ágúst og að þessu sinni eingöngu til stjórnar RÚV ohf. Í bréfinu óskaði ég svara stjórnarinnar við fjórum spurningum:

·         Telur stjórn RÚV ohf. að vinnubrögð Kastljóss í þessu máli hafi verið góð og fagleg?

·         Telur stjórn RÚV ohf. að sanngirni og hlutlægni hafi verið gætt?

·         Telur stjórn RÚV ohf. að upplýsinga hafi verið leitað frá báðum eða öllum aðilum og sjónarmið þeirra kynnt sem jafnast?

·         Telur stjórn RÚV ohf. að fréttamenn þess megi stuðla að einhliða málflutningi, sem felur í sér ávirðingar um brot og láta þannig lönd og leið þá meginreglu réttarríkisins að maður teljist saklaus uns sekt hans er sönnuð fyrir þar til bærum dómstóli?

Ég lýsti því jafnframt yfir í bréfinu, að ég væri enn reiðubúinn til að sættast á formlega afsökunarbeiðni stjórnarinnar.

Skemmst er frá því að segja að stjórn RÚV hefur engu svarað. Ég rakst á frétt Kjarnans föstudaginn 28. ágúst sl. þar sem haft var eftir varaformanni stjórnar að stjórn RÚV hefði vísað málinu til yfirmanna Kastljóssins, þ.e. útvarpsstjóra og fréttastjóra, en þaðan hafa heldur engin skrif borist, átta vikum síðar. Þá var haft eftir varaformanninum að það væri ekki hlutverk stjórnar RÚV að skipta sér af ritstjórn eða efnistökum Kastljóss.

Mér þykja það aum vinnubrögð stjórnar að svara í engu bréfum sem til hennar er beint, ekki einu sinni til að upplýsa sendandann að hún hafi ákveðið að víkja sér undan málinu enn á ný. Stjórn RÚV ohf. ber ábyrgð á að farið sé að lögum í starfsemi Ríkisútvarpsins. Í lögum um RÚV ohf. eru engar undanþágur fyrir stjórn sem vill víkja sér undan óþægilegum málum. Stjórnin á líka, lögum samkvæmt, að gera aðalfundi grein fyrir því á ári hverju hvernig tekist hefur að uppfylla lögbundnar skyldur Ríkisútvarpsins um fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu. Mér þætti gaman að heyra rök stjórnarinnar fyrir því hvernig til hefur tekist í þessu máli.

Ég fer aftur fram á að stjórn RÚV svari þeim skýru spurningum sem ég beini til hennar. Kjósi hún af einhverjum ástæðum að víkja sér undan þeim svörum fer ég fram á að hún sendi mér skriflegt svar þar sem sú afgreiðsla kemur fram og hvers vegna hún sinnir ekki lögboðnu hlutverki sínu.

Virðingarfyllst,

Björgólfur Thor Björgólfsson