Dæmt eftir einhliða gögnum

Ég ritaði annað bréf til RÚV ohf. í byrjun þessarar viku og ítrekaði óskir mínar um afsökunarbeiðni frá stofnuninni vegna meiðandi umfjöllunar Kastljóss 23. júní sl. Áður hafði mér borist bréf frá ritstjóra Kastljóss og fréttamanni, en af því mátti ráða að aldrei var ætlunin að kynna sjónarmið beggja aðila í þættinum enda ganga ritstjórinn og fréttamaðurinn svo langt í bréfinu að fullyrða að sekt mín sé sönnuð.

Í fyrra bréfi mínu færði ég fram rök fyrir að RÚV hefði brotið þau lög sem gilda um stofnunina með því að beita ófaglegum vinnubrögðum, láta sanngirni og hlutlægni lönd og leið og láta ógert að leita upplýsinga frá báðum aðilum eða kynna sjónarmið þeirra sem jafnast. Hér er hægt að lesa það bréf mitt í heild.

Ritstjóri og fréttamaður Kastljóss, Þóra Arnórsdóttir og Helgi Seljan, sendu svarbréf í lok júlí. Í bréfinu segja þau ýmsar nýjar upplýsingar hafa komið fram í þættinum og nefna þar fundargerðir og tölvuskeyti, sem lögmaður í forsvari fyrir hópmálsókn gegn mér hafði látið þeim í té. Að mati ritstjóra og fréttamanns vörpuðu þessi einhliða gögn „meðal annars ljósi á það hver tilgangurinn var með breytingu á eignarhaldi á hlutabréfum. Eignarhaldið var fært á milli aðila til að koma í veg fyrir að Björgólfur Thor kæmist í þá stöðu að Landsbankinn þyrfti að upplýsa um viðskipti sín við hann og einnig að aðilar teljist yfirtökuskyldir samkvæmt lögum.“

Ég ætlaði vart að trúa mínum eigin augum þegar ég las þessa játningu ritstjóra og fréttamanns á því hvernig RÚV metur gögn annars aðila í boðuðu dómsmáli og kynnir fyrir landsmönnum öllum sem faglega, sanngjarna og hlutlæga frásögn.

Að þessu sinni er erindi mínu eingöngu beint að stjórn RÚV ohf., enda ber stjórnin ábyrgð á að farið sé að lögum í starfsemi Ríkisútvarpsins og þarf að gera aðalfundi grein fyrir því á ári hverju hvernig tekist hefur að uppfylla lögbundnar skyldur Ríkisútvarpsins um fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu.

Bréf mitt til stjórnar RÚV ohf., dagsett 24. ágúst, er svohljóðandi:

Mér hefur borist bréf frá ritstjóra Kastljóss og fréttamanni, Þóru Arnórsdóttur og Helga Seljan, sem svar við kvörtun minni til stofnunarinnar 30. júní sl. Afrit bréfsins fylgir.

Meginefni kvörtunar minnar laut að því að lögmaður fékk að flytja mál gegn mér, mótmælalaust, í rúman stundarfjórðung í Kastljósi RÚV 23. júní sl. Talsmanni mínum bauðst á útsendingardaginn að koma athugasemdum á framfæri, en þær voru lesnar í mjög styttri mynd. Í kvörtun minni leyfði ég mér að benda á að Ríkisútvarpinu ber að lögum að vera til fyrirmyndar um gæði og fagleg vinnubrögð; ábyrgjast að sanngirni og hlutlægni sé gætt í frásögn, túlkun og dagskrárgerð, leitað sé upplýsinga frá báðum eða öllum aðilum og sjónarmið þeirra kynnt sem jafnast og sannreyna að heimildir séu réttar og að sanngirni sé gætt í framsetningu og efnistökum.

Í bréfi ritstjórans og fréttamannsins er því fyrst haldið fram, að í þættinum hafi komið fram ýmsar nýjar upplýsingar um væntanlega hópmálsókn gegn mér og vísað til efnis fundargerða og tölvuskeyta. Fréttamaðurinn hefði betur kynnt sér eldri fréttir af málinu, því þegar þessir  aðilar ráku vitnamál gegn mér til að afla gagna komu allar sömu fullyrðingar fram. Ég leyfi mér að vísa í frétt mbl.is frá 11. mars 2014 („Krefja samstarfsmenn Björgólfs svara“) sem dæmi frá þessum tíma, en þar kemur skýrt fram að fundargerð sem Kastljós telur tíðindum sæta í júní 2015 var rædd í þaula í dómsal í mars 2014. Eru að líkindum hæg heimatökin hjá fréttamönnum að kynna sér fyrri fréttir af málinu, ef áhugi er á.

 Það skiptir ekki meginmáli hvort fundargerðir eða tölvuskeyti hafa áður verið til umfjöllunar, þótt óneitanlega dragi endurtekningar úr vægi „fréttaskýringar“ rúmu ári síðar. Hitt er öllu alvarlegra, hvaða ályktanir ritstjóri og fréttamaður draga af þeim plöggum sem að þeim eru rétt. Þannig segir í bréfi þeirra um gögnin að þau „vörpuðu meðal annars ljósi á það hver tilgangurinn var með breytingu á eignarhaldi á hlutabréfum. Eignarhaldið var fært á milli aðila til að koma í veg fyrir að Björgólfur Thor kæmist í þá stöðu að Landsbankinn þyrfti að upplýsa um viðskipti sín við hann og einnig að aðilar teljist yfirtökuskyldir samkvæmt lögum.“

Engir fyrirvarar eru settir af hálfu ritstjórans og fréttamannsins. Í þeirra huga liggur málið ljóst fyrir og því kannski ekki við öðru að búast en að slagsíða væri á umfjölluninni. Til allrar hamingju fæst ekki lokaniðurstaða í dómsmál í myndveri RÚV, við matreiðslu á gögnum sem annar aðili máls kemur á framfæri í auglýsingaskyni.

Varðandi það hvort talsmaður minn hafi þekkt málið og vitað um hvað það snerist þá er auðvitað hægt að taka undir að vissulega þekkir Ragnhildur Sverrisdóttir þær ávirðingar sem hafðar hafa verið uppi í minn garð undanfarin ár. Hún gat hins vegar ekki séð fyrir svo einhliða framsetningu þeirra af hálfu RÚV. Það er fásinna að halda því fram að henni hafi í raun gefist kostur á andsvörum, örfáum klukkustundum áður en fullunninn þátturinn var sendur út, enda kom á daginn að ekki var rými fyrir svör hennar í þættinum sjálfum. Ein setning var höfð eftir henni í inngangi „fréttaskýringarinnar“ og mjög stytt útgáfa yfirlýsingar hennar lesin upp að „fréttaskýringunni“ lokinni.

Í bréfi ritstjórans og fréttastjórans segir enn fremur: „Björgólfi Thor var að sjálfsögðu boðið að koma í viðtal.“ Telur stjórn RÚV það boðleg vinnubrögð að fréttamaður hafi samband örfáum klukkustundum fyrir útsendingu og bjóði manni, sem þeim hlýtur að vera fullkunnugt um að er búsettur í útlöndum, að koma í viðtal þann sama dag?

Mér var ekki hlátur í huga þegar ég las bréf ritstjórans og fréttamannsins, en gat þó ekki annað en brosað að þeim skrifum þeirra að Kastljós sé ekki prentmiðill og „eðli málsins samkvæmt eru þar ekki lesnar upp langar yfirlýsingar“. Í „fréttaskýringunni“ margnefndu var lesið upp úr fundargerðum, tölvuskeytum og óbirtri stefnunni og dró fréttamaður hvergi af sér í þeim húslestri, þótt úthaldið hafi brostið þegar kom að yfirlýsingu talsmanns míns. Þessi rök falla því dauð.

Ég óska hér með skýrra svara frá stjórn RÚV ohf. um öll eftirfarandi atriði:

-          Telur stjórn RÚV ohf. að vinnubrögð Kastljóss í þessu máli hafi verið góð og fagleg?

-          Telur stjórn RÚV ohf. að sanngirni og hlutlægni hafi verið gætt?

-          Telur stjórn RÚV ohf. að upplýsinga hafi verið leitað frá báðum eða öllum aðilum og sjónarmið þeirra kynnt sem jafnast?

-          Telur stjórn RÚV ohf. að fréttamenn þess megi stuðla að einhliða málflutningi, sem felur í sér ávirðingar um brot og láta þannig lönd og leið þá meginreglu réttarríkisins að maður teljist saklaus uns sekt hans er sönnuð fyrir þar til bærum dómstóli?

Ég ítreka að umfjöllun Kastljóss þriðjudaginn 23. júní sl. var meiðandi og til þess fallin að valda mér miklu tjóni. Ég er þó enn tilbúinn til að sættast á formlega afsökunarbeiðni frá stjórn RÚV ohf. á þeim vinnubrögðum sem beitt var í þessu máli.

Virðingarfyllst,

Björgólfur Thor Björgólfsson