UPPGJÖR

Í bókinni Billions to Bust – and Back geri ég upp alla viðskiptasögu mína til þessa dags. En ekki aðeins viðskiptasöguna. Ég fer allt aftur til bernsku, fjalla um fjölskylduna, rek mál sem höfðu mikil áhrif á mig, reyni að varpa ljósi á það andrúmsloft sem ríkti í Pétursborg í Rússlandi þann áratug sem ég starfaði þar, fjalla um einkavæðingu Landsbankans, kaup og sölu fyrirtækja á meginlandi Evrópu, uppbyggingu nýrra fyrirtækja, hrunið haustið 2008 og eftirköst þess. Skuldauppgjör mitt við alla lánardrottna fær að sjálfsögðu sinn sess í bókinni, en hún fjallar þó ekki eingöngu um fjárhagslegt uppgjör, heldur ekki síður persónulegt uppgjör.

Fjárhagslegt uppgjör reyndi auðvitað verulega á, en hið persónulega reyndist þó miklu erfiðara. Ég var staðráðinn í að læra mína lexíu af hruninu. Ég gerði ýmis mistök og verð að horfast í augu við þau, segja söguna alla og draga ekkert undan. Það var mér líka hvatning við ritun bókarinnar að svo margri vitleysunni hefur verið haldið fram um mig og viðskipti mín að ég varð að freista þess að leiðrétta það bull.

Bókin kemur út á ensku, en íslensk þýðing hennar kemur í verslanir snemma árs 2015.