Umfjöllun um uppgjör
Bók mín Billions to Bust – and Back er nú komin í verslanir á Íslandi. Ég get ekki kvartað undan skorti á áhuga á henni hingað til, töluvert hefur verið fjallað um hana í fjölmiðlum og birtir bókarkaflar og viðtöl við mig. Þá er hún einnig komin í verslanir í Bretlandi og þar telja menn einnig ástæðu til að vekja athygli á henni. Hin þekkta verslanakeðja WHSmith býður hana til sölu í verslunum sínum á flugvöllum og lestarstöðvum, svo dæmi sé tekið. Á Íslandi er hana að finna í verslunum Eymundsson og e.t.v. víðar.
Umfjöllun um bókina hófst með viðtali við mig í Viðskiptablaðinu 27. nóvember og þann dag birti Morgunblaðið einnig fyrstu kafla bókarinnar. Fréttatíminn birti stutta kafla úr bókinni, ásamt viðtali við mig, föstudaginn 28. nóvember. Þeir kaflar voru á persónulegum nótum, til dæmis um brúðkaup okkar Kristínar. Sama dag birti DV kafla um Rússlandsárin, gos- og bjórframleiðslu í „Villta austrinu“ og blaðið birti einnig viðtal við mig föstudaginn 5. desember þar sem m.a. var fjallað um meingallaða einkavæðingu bankanna á sínum tíma.
Það yrði of langt mál að telja upp allar þær fréttir, sem rötuðu inn á netmiðla þessa sömu daga. Þær voru margar og margvíslegar – og ekki má gleyma að Halldór Baldursson dró upp mynd af mér í líki Jóakims aðalandar. Ég get nú ekki kvittað upp á að tilhugsunin um að einhver sé ríkari en ég raski sálarró minni, en ég veit betur en að reyna að deila við svo flinkan skopmyndateiknara!
Þótt umfjöllun íslenskra fjölmiðla hafi verið töluvert umfangsmikil, eins og viðhengdar úrklippur sýna dæmi um, þá fer því auðvitað fjarri að bókinni allri hafi verið gerð skil. Þegar gripið er niður í bók hér og þar er að sjálfsögðu ekki hægt að fá heildstæða mynd af efni hennar. Því miður hefur nokkuð borið á því að menn hafi dæmt bókina út frá þeim molum sem birst hafa – og slíta þá ummæli úr samhengi eða kvarta undan því að eitt og annað vanti í bókina. Ég bendi þeim á að lesa hana fyrst – og dæma svo. Bretar hafa gjarnan á orði að ekki eigi að dæma bækur eftir kápum þeirra – og yfirfæra það orðatiltæki sitt raunar á mannlífið allt, enda eru mikil sannindi í því. Það er ekki hægt að dæma á grundvelli yfirborðsþekkingar. Ég vona að sem flestir, a.m.k. þeir sem ætla að setjast í dómarasæti, lesi bókina spjaldanna á milli.