Skuldabréf Play eftirsótt

Viðskiptablaðið greindi í vikunni frá skuldabréfaútboði fjarskiptafyrirtækisins Play í Póllandi. Mikil eftirspurn var eftir bréfunum og varð niðurstaðan sú að gefa út skuldabréf upp á 900 milljónir evra, jafnvirði 130-140 milljarða króna.

Skuldabréfaútboðið var kynnt fyrir fjárfestum í London, Aþenu, Frankfurt og París og fóru viðtökur fram úr björtustu vonum. Sú hefur reyndar verið raunin með Play allt frá stofnun fyrirtækisins. Play varð fyrst til sem hugmynd á skrifstofu Novators í London, án þess að nokkur þar þekkti til viðskipta í Póllandi. Tveggja manna skrifstofan, sem við komum á laggirnar með breskum og sænskum starfsmanni, er núna stórfyrirtæki sem veitir þúsundum landsmanna atvinnu.

Play kom fram á markaðinn undir því nafni í febrúar 2007 og hafði náð fyrstu hundrað þúsund kúnnunum þremur mánuðum síðar, hinn 14. maí 2007.  Núna, sjö árum síðar, eru viðskiptavinir Play rúmlega tíu milljón talsins og fyrirtækið er fjórða stærsta fjarskiptafyrirtækið í Póllandi.

Hlutur Novators í Play er stærsta eign fjárfestingarfélagsins, að hlutnum í Actavis frátöldum.

Viðskiptablaðið minnir á að eignarhluturinn í Play var hluti af skuldauppgjöri mínu og Novators við alla lánardrottna, sem fyrst var skýrt frá í júlí 2010. Þá minnir blaðið jafnframt á þau ummæli mín í viðtali í fyrra, að Play væri sú fjárfesting sem ég einbeitti mér að í augnablikinu. Ég hef lagt mikla áherslu á að hámarka virði allra þeirra eigna, sem liggja til grundvallar skuldauppgjöri mínu. Lánardrottnar, sem ákváðu að treysta mér fyrir því verki, þurfa ekki að sjá eftir þeirri ákvörðun.