Skuggi múrmeldýrsins
Hátt í sex árum eftir fall bankanna og fjórum árum eftir útgáfu skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis ganga sömu vitleysurnar enn ljósum logum í umræðunni. Höfundur nýjustu hrunbókarinnar dregur ekkert af sér. Bók hans hverfist að sönnu um fyrrverandi forsætisráðherra, en ýmis stórmál eru afgreidd snaggaralega – og ranglega.
Í bókinni Skuggi sólkonungs fer Ólafur Arnarson á hundavaði yfir einkavæðingu bankanna. Hann fullyrðir að „nánast engir erlendir peningar“ hafi komið inn í Landsbankann og Búnaðarbankann við einkavæðingu þeirra og bætir svo að „nær ekkert nýtt eigið fé“ hafi komið inn í kaupin. „Búnaðarbankinn lánaði Samson til kaupanna á Landsbankanum,“ fullyrðir höfundurinn.
Það er með ólíkindum að enn skuli þurfa að hnykkja á staðreyndum hvað varðar einkavæðingu Landsbankans, svo löngu eftir að þær eru allar komnar fram. 65% kaupverðs Landsbankans komu úr vösum eigenda Landsbankans. Greiðslutilhögunin var þessi:
•Fyrsta greiðsla var eiginfjárframlag Samson og var greidd við undirritun samnings. Greiðslan var að upphæð USD 48,081,731. Um er að ræða greiðslu sem að var 36% af heildarkaupverði.
•Önnur greiðsla var fjármögnuð með láni frá Búnaðarbanka, síðar KB, og var greidd 30. april 2003. Greiðslan var að upphæð USD 48,272,204. Um er að ræða greiðslu sem að var um 36% af heildarkaupverði. Lán þetta var greitt að fullu í apríl 2005.
•Þriðja greiðslan var svo eiginfjárframlag, í formi lána frá hluthöfum, og var greidd 29. desember 2003. Greiðslan var að upphæð USD 41,725,653. Um er að ræða greiðslu sem var um 27% af heildarkaupverði.
Saðsöm skuldasúpa?
Fullyrðingagleðin ríður ekki við einteyming í bókinni. Þannig tíundar höfundur að margar fjárfestingar Íslendinga í útlöndum hafi verið vel heppnaðar og nefnir fjárfestingar Baugs í eignum á borð við Iceland, Hamley‘s og Magazin du Nord. „Þetta eru eignirnar sem munu borga Icesave,“ skrifar hann og bergmálar þar óvænt ríflega þriggja ára pistil Bubba Morthens. Virðast því enn til a.m.k. tveir menn sem trúa því að skuldasúpa Baugs hafi á einhvern hátt komið Landsbankanum til bjargar. Auðvitað var þarna engin „eign“ Baugs sem Landsbankinn var svo lánsamur að eignast fyrir einhverja galdra, heldur tók bankinn fyrirtækið upp í gríðarlegar skuldir. Þetta var dropi í skuldahaf Baugs, eins og ég hef áður lýst.
Ekki orð um Kaupþingslán
Undirtitill bókarinnar er „Er Davíð Oddsson dýrasti maður Íslandssögunnar“ og í sérstökum kafla er fjallað um gjaldþrot Seðlabankans. Höfundur tíundar þar ýmsar ákvarðanir Seðlabankans, sem hafi reynst þjóðinni dýrkeyptar. Ljóst er að honum þykir fátt hafa verið gert rétt innan bankans þegar bankakerfið riðaði til falls og enginn vafi í hans huga að versta höggið sem þjóðin varð fyrir var vegna Seðlabankans.
Þrátt fyrir þessa skoðun höfundar er hvergi fjallað um þá ákvörðun Seðlabankans að lána Kaupþingi nær allan gjaldeyrisforða þjóðarinnar korteri fyrir hrun. Höfundur birtir reyndar svokallaða tímalínu bankahrunsins í miðri bókinni og þar er að finna setninguna: „Seðlabankinn lánar Kaupþingi 500 milljónir evra með veði í danska FIH bankanum.“ Fleiri orð eru ekki höfð um þá óskýrðu ákvörðun að afhenda Kaupþingi gjaldeyrisforða þjóðarinnar. Þess í stað er oftar en einu sinni vikið að því að Kaupþing hafi verið bestur bankanna og stjórnendur þess banka hæfastir. Þar læðist aldrei efi að, sem í sjálfu sér er áhugaverðast við bók sem kemur út hátt í sex árum eftir hrun.
Höfundur bókarinnar Skuggi sólkonungs er vitanlega ekki sá fyrsti sem fellur í þá gryfju að hafa það sem betur hljómar. Það kemur þó spánskt fyrir sjónir að sá sem gjarnan vill teljast marktækur sem álitsgjafi skuli ekki gæta þess að fara rétt með staðreyndir, enda rýra augljós ósannindin bókina í heild. Að lesa hana er svipað og að horfa á kvikmyndina Groundhog Day: Ekkert breytist, sami dagurinn rennur upp æ ofan í æ. Og ef múrmeldýrið sér skugga sinn verður veturinn lengri. Nú er hins vegar orðið löngu tímabært að birti yfir umræðunni.