Erlendir fjölmiðlar fjalla um uppgjörið

Fjölmiðlar í Bretlandi hafa sýnt bókinni Billions to Bust – and Back töluverðan áhuga. Þeir eru dálítið seinni til en þeir íslensku, en þó hafa þegar birst nokkrar greinar og viðtöl og fleiri eru í burðarliðnum.

Forbes

reið á vaðið 9. desember með grein undir fyrirsögninni Iceland’s Thor Bjorgolfsson chronicles his own journey to billionaire, bust and back. Í greininni, sem Luisa Kroll skrifar, er efni bókarinnar rakið í grófum dráttum. Luisa minnir lesendur á, að hún hafi áður ritað um mig grein, en það var árið 2005.

Mánudaginn 15. desember birti City A.M. grein um bókina. Blaðið er fríblað um viðskipti og er m.a. dreift til fyrirtækja í fjármálahverfinu í London og víðar. Blaðið tekur þann kostinn að líkja mér við hnefaleikakappann Rocky Balboa. Sá barðist til sigurs að nýju eftir að hafa verið afskrifaður og ekki leiðum að líkjast að því leyti.
Ég fór einnig í viðtal við breska ríkisútvarpið, BBC. Viðtalinu var útvarpað á BBC World Service á mánudag, en sú útsending nær víða um heim. Þá verður hluta þess viðtals útvarpað í daglegum morgunþætti BBC4, BBC Today, um jólin.
Fleiri viðtöl eru væntanleg. t.d. hef ég þegar rætt við blaðamann Sunday Times og reikna með að það viðtal birtist innan skamms.
Það er ánægjulegt að fjölmiðlar skuli hafa jafn mikinn áhuga á sögu minni og raun ber vitni. Ég vonast auðvitað til að sem flestir lesi hana. Að sjálfsögðu geri ég enga kröfu um að fólk sé mér sammála um þá atburði sem ég rita um, en forsenda þess að hægt sé að ræða efni bókarinnar er auðvitað sú að hún sé lesin.