Tugir milljarða til íslenskra banka

Viðskiptablaðið birtir í dag tveggja síðna úttekt um endurskipulagningu Actavis og skuldauppgjör mitt og fjárfestingarfélags míns, Novator. Þar kemur vel fram hversu flókið ferlið var, þar sem leggja þurfti áherslu á að hámarka virði þeirra miklu eigna sem lágu til grundvallar uppgjörinu og semja við fjölda lánardrottna.

Nánustu samstarfsmenn mínir hjá Novator, Andri Sveinsson og Birgir Már Ragnarsson, sögðu blaðamanninum Guðna Rúnari Gíslasyni af þeirri vinnu sem lá að baki samningum um endurskipulagningu og skuldauppgjör. Þegar sú vinna hófst var ljóst að fjármálafyrirtæki gátu gengið að mér og gert mig gjaldþrota vegna mikilla persónulegra ábyrgða sem ég hafði gengist undir. Til allrar hamingju tóku þeir ekki þann kostinn. Samningar tryggðu þeim miklu betri niðurstöðu. Í greininni kemur m.a. fram að ég hef þegar greitt Landsbanka Íslands 22 milljarða króna og mun greiða honum 12 milljarða til viðbótar á næstu tveimur árum. Aðrir íslenskir bankar hafa fengið um 9,5 milljarða og fá um 8 milljarða til viðbótar.

„Stærsti skuldarinn“

Landsbankinn í Lúxemborg hefur fengið greidda um 50 milljarða króna í skuldauppgjöri mínu. Full ástæða er til að rifja upp að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis tilgreindi mig sérstaklega sem stærsta skuldara Landsbankans í Lúxemborg . Rannsóknarnefndin tók ekkert tillit til þess að ég var líklega stærsti innistæðueigandinn í bankanum og hefði með réttu átt að vera í 18. sæti listans yfir skuldugustu einstaklingana, en ekki því efsta. 50 milljarðarnir hafa nú verið greiddir að fullu.

Traust viðsemjenda

Skuldauppgjöri mínu er ekki að fullu lokið. Það er hins vegar langt komið og ég farinn að sjá fyrir endann á því,  sem er mikill léttir. Viðskiptablaðið vísaði í viðtal sem blaðið tók við mig sumarið 2010, þegar skuldauppgjörið var í höfn. Þau orð eru enn í fullu gildi: „Ég get sagt hreint út, að ég hefði getað látið banka ganga að mér og lýst mig gjaldþrota, en haldið háum fjárhæðum í sjóðum. Ég hefði getað lifað áfram í vellystingum á því fé. En þá hefði ég verið á stöðugum flótta frá samfélaginu.  Slíkt líf hlýtur að vera algjörlega óþolandi og ég get ekki sett mig í spor þeirra sem berjast um á hæl og hnakka til að forðast að gera upp sín mál. Mér tókst að semja með því að leggja allar eigur á borðið og ávinna mér þannig traust viðsemjendanna. Þegar þeir höfðu fullvissað sig um að ég hefði ekkert að fela voru þeir reiðubúnir að semja.“