Staða Landsbankans einsdæmi í heiminum

Grýla gamla er loksins dauð! Ísland vann fullnaðarsigur fyrir EFTA-dómstólnum í Icesave-málinu. „Ég man ekki eftir banka sem fallið hefur í heiminum sem skilið hefur við með þessum hætti,“ sagði utanríkisráðherra í morgun og ítrekaði að allt sem Ísland sagði um styrk og greiðslugetu þrotabús Landsbankans stóðst.

Frá upphafi hef ég haldið því fram, að eignir Landsbankans dygðu fyrir Icesave. Ég benti fyrst á þetta í viðtali við fréttaskýringarþáttinn Kompás strax eftir hrun, eða 27. október 2008 og sagði nauðsynlegt að halda vel utan um eignir bankans til að þær gætu gengið upp í Icesave. Þetta hefur gengið eftir, enda hafa reglulega borist fréttir af síbatnandi stöðu þrotabúsins. Í þessum þætti varaði ég líka við, að viðbrögð við vandanum gætu reynst afdrifaríkari en vandinn sjálfur og þar reyndist ég einnig sannspár, því miður. Allt það fólk sem tengdist Landsbankanum þurfti að sitja undir ákúrum um föðurlandssvik og ætlast var til að það færi með veggjum, á meðan pólitíkusar börðu sér á brjóst og kepptust við að yfirbjóða hver annan í fáránlegum yfirlýsingum. Hvílíkt óréttlæti!

Hverjir sáu sér hag í því að gera ógnvekjandi Grýlu úr Icesave? Getur verið að það hafi hentað ýmsum stjórnmálamönnum vel að sameina þjóðina í ofsafengnum viðbrögðum við sameiginlegum óvini? Er ekki hugsanlegt, að ýmis önnur mál hafi fallið í gleymsku og dá á meðan menn froðufelldu um þá þrælakistu sem biði íslenskra barna? Eru menn núna reiðubúnir að skoða hverjir það voru, sem sáu sér hag í að vekja skelfingu hjá þjóðinni, í stað þess að segja sannleikann um Landsbankann og stöðu hans?

Þetta er sannarlega ánægjulegur dagur og vonandi markar hann upphaf nýrra tíma í umræðunni eftir hrun.