Órökstudd geðþóttaákvörðun
Straumur-Burðarás fjárfestingabanki var felldur fyrir réttum fjórum árum, 9. mars 2009. Enn hefur sú ákvörðun ekki verið rökstudd og í skjalasafni forsætisráðuneytisins finnst ekki eitt einasta skjal sem varðar málið. Engin skjöl hafa heldur fundist í fórum fjármálaráðuneytisins, viðskiptaráðuneytisins eða Seðlabankans. Engin minnisblöð, engar fundargerðir eða bréf. Hvenær kemur að því að stjórnvöld verða krafin svara um hvers vegna þessi afdrifaríka ákvörðun var tekin? Allt bendir til að um órökstudda geðþóttaákvörðun hafi verið að ræða, en margyfirlýst ást stjórnmálamanna á gagnsæi hlýtur að tryggja að málið verði að fullu upplýst, þótt síðar verði.
Enginn reynir að þræta fyrir að í hruninu og fyrir hrun voru margar og stórar ákvarðanir teknar, sem reyndust síðar vera dýrkeypt mistök. Þar nægir að nefna þá óskiljanlegu ákvörðun Seðlabanka Íslands að lána Kaupþingi nær allan gjaldeyrisforða þjóðarinnar í hruninu miðju. Sú ákvörðun á það sameiginlegt með falli Straums að enn hafa engar skýringar fengist. Engin skjöl eru til, engin rök að finna. Í því tilfelli hafa þó verið gerðar ítrekaðar tilraunir til að fá svör, en sjálft Alþingi er hunsað.
Eftir hrun gegndi Straumur Burðarás mikilvægu hlutverki við að halda almennum tengslum við hið alþjóða fjármálakerfi, en nær allir aðrir þættir íslenska fjármálakerfisins voru komnir í hendur hins opinbera. Í mars 2009 var staðan sú að Straumur hafði þegar samið við lánardrottna sína um að fresta afborgunum af lánum. Bankinn hafði einnig náð að selja eignir og stefnt var að frekari sölu eigna fyrir 200 milljónir evra á næstu mánuðum. Vandinn var eingöngu tímabundinn lausafjárskortur. Til að brúa bilið var farið fram á 100 milljónir evra að láni frá Seðlabankanum. Með fyrirgreiðslunni hefði bankinn getað greitt allar skuldir sem fyrirsjáanlegt var að standa þyrfti skil á.
Stjórnvöld höfnuðu þessari leið. Þegar ljóst var að Straumur fengi ekki fyrirgreiðslu ákváðu stjórnendur hans að óska eftir greiðslustöðvun, sem var eðlilegt næsta skref. Fjármálaeftirlitið greip hins vegar inn í atburðarásina með því að beita neyðarlögunum og setja skilanefnd yfir bankann. Sú ákvörðun er enn óskiljanlegri en ella þegar litið er til þess að hún var tekin í sama mánuði og ríkið taldi rétt að leggja VBS til 26,4 milljarða, en sú ákvörðun bar vott um „margt það versta sem einkennt hefur íslenska stjórnsýslu,“ eins og það er orðað í sagnfræðilegri samantekt. Ríkið veitti Saga Capital líka tæplega 20 milljarða lán á sömu kjörum á sama tíma og kom að endurfjármögnun smærri og stærri sparisjóða og lagði þeim til fé. Ekki hafa þær ákvarðanir allar reynst farsælar, svo vægt sé til orða tekið.
Í þessari tilvitnuðu sagnfræðilegu samantekt kemur fram að stjórnvöld hafi líklega talið það „pólitíska áhættu“ að grípa til aðgerða sem hægt væri að túlka sem einhverskonar stuðning við mig, stjórnarformann bankans. Bankinn var felldur að ástæðulausu vegna hugleysis stjórnvalda, sem treystu sér ekki til að segja almenningi að bankinn sem ég stýrði væri traustur og öruggur og rétt væri að leysa tímabundinn lausafjárvanda hans. Eðlilegum reglum stjórnsýslunnar var einfaldlega vikið til hliðar og um leið var hagsmunum 20 þúsund hluthafa varpað fyrir róða og hættan á þjóðargjaldþroti jókst. Öllu er snúið á hvolf ef slík framkoma stjórnvalda felur ekki í sér „pólitíska áhættu“.
Tæpu 2 ½ ári eftir fall Straums kom fram að bankinn hefði gert upp að fullu lán sín hjá Seðlabanka Íslands. Seðlabankinn tapaði því engu á lánveitingu til bankans, sem ríkið taldi af einhverjum ástæðum þörf á að yfirtaka vegna tímabundins lausafjárvanda.