Leiksýning

DV fjallar í dag um greinargerð lögmanns míns vegna svokallaðs vitnamáls sem Vilhjálmur Bjarnason fjárfestir og frambjóðandi hefur farið fram á fyrir héraðsdómi Reykjavíkur. DV tíundar helstu atriði greinargerðarinnar með sínum hætti. Blaðið sleppir því þó alveg að nefna fullyrðingar í henni um að Vilhjálmur ætli sér að stilla upp allsherjar leiksýningu í dóminum sér og fjölmiðlum til skemmtunar, en dóminum og öðrum til ama og trafala. Þessi ummæli staðfestir blaðið þó í raun með birtingu fréttarinnar, enda blekið vart þornað á greinargerðinni þegar hún er komin í hendur blaðamanns.

Auðvitað mun héraðsdómur ekki fyrirskipa allsherjar rannsókn á starfsemi Landsbankans mörg ár aftur í tímann á grundvelli óstaðfestra upphrópana, en leikurinn er hvort sem er ekki til þess gerður. Málið er sett fram í trausti þess að fólk kynni sér ekki málavexti. Almenningur er hins vegar betur upplýstur en svo að það takist æ ofan í æ.