Frábær Fanfest CCP

Árlegri hátíð CCP, Fanfest, lauk um helgina. Það var frábært að koma í Hörpu og sjá allan þann fjölda sem lagt hafði leið sína til landsins til skrafs og ráðagerða um EVE Online tölvuleikinn og að sjálfsögðu líka Dust 514, sem fer formlega í loftið eftir hálfan mánuð. CCP lætur líka til sína taka  í raunheimum, með gerð sjónvarpsþátta í leikstjórn Baltasars Kormáks og samningum við  hasarblaðaútgefandann Dark Horse.  

Það voru engar ýkjur hjá Eldari Ástþórssyni, fjölmiðlafulltrúa CCP, í samtali við mbl.is að hægt væri að sjá bros á hverju andliti í Hörpunni á Fanfest 2013. Sumir höfðu ríkari ástæðu til að gleðjast en aðrir, a.m.k. hjónin sem létu Hilmar Pétursson forstjóra CCP pússa sig saman.

CCP er sífellt að leita nýrra leiða til að sinna spilurum sem allra best. Á lokadegi Fanfest var tilkynnt að leikstjórinn Baltasar Kormákur myndi leikstýra sjónvarpsþáttum sem byggja á sönnum sögum úr EVE Online tölvuleiknum.

Þá var einnig skýrt frá því að CCP og hasarblaðaútgefandinn Dark Horse hafa tekið höndum saman og ætla að gefa út blöð undir heitinu EVE: True Stories, þar sem byggt verður á sögum úr tölvuleiknum og úr nýja leiknum Dust 514. Dark Horse mun einnig gefa út ítarlegt yfirlitsrit, EVE: Source.

Og ef einhver heldur að tölvuleikir njóti ekki sannmælis sem þau miklu afrek í hönnun sem þeir í raun og veru eru, þá ætti sá hinn sami að kynna sér umfjöllun Museum of Modern Art í New York. EVE Online er á meðal 14 tölvuleikja sem valdir hafa verið á nýja sýningu Nýlistasafnsins og deilir þar plássi með klassískum leikjum á borð við Pac-Man, Tetris og SimCity.

Það hefur verið einstaklega gaman að fylgjast með þeirri hugmyndaauðgi og þeim krafti sem einkennir CCP. Nú eru rúmlega 7 ár frá því að fjárfestingafélag mitt, Novator, keypti hlut í CCP. Fyrirtækið var þá miklu smærra en núna, en krafturinn var hinn sami. Ekkert bendir til annars en að CCP muni halda áfram á sömu braut.