Enn situr Nova á toppnum!

Starfsemi símafyrirtækisins Nova hefur allt frá upphafi einkennst af miklum metnaði og góðri þjónustu. Þar er alltaf leitað nýrra leiða til að gera „stærsta skemmtistað í heimi“ enn skemmtilegri og það kunna viðskiptavinirnir greinilega vel að meta.   

Í síðustu viku voru niðurstöður Íslensku ánægjuvogarinnar fyrir árið 2012 kynntar. Íslenska ánægjuvogin er könnun sem Samtök iðnaðarins, Stjórnvísi og Capacent Gallup standa sameiginlega að með það að markmiði að útvega fyrirtækjum samræmdar mælingar á ánægju viðskiptavina. 

Skemmst er frá því að segja að Nova mældist fjórða árið í röð með ánægðustu viðskiptavinina í farsímaþjónustu á Íslandi. Fyrirtækið fékk einkunnina 71,6, en meðaleinkunn farsímageirans á Íslandi var 62,2. 

Nova var jafnframt það fyrirtæki sem hlaut hæstu einkunn allra fyrirtækja sem könnunin náði til, þ.e. ekki aðeins farsímafyrirtækja. Viðskiptavinir Nova eru því ánægðustu viðskiptavinirnir á Íslandi þriðja árið í röð.

Liv Bergþórsdóttir, framkvæmdastjóri Nova, var valin Markaðsmaður ársins 2012 og undir hennar stjórn er valinn maður í hverju rúmi hjá fyrirtækinu.  Nova-fólk á fyllilega skilið að fá þessa góðu viðurkenningu Íslensku ánægjuvogarinnar.

Nova hefur verið í fararbroddi á íslenskum farsímamarkaði allt frá stofnun fyrirtækisins árið 2006.  Ég er stoltur af árangri fyrirtækisins og vænti mikils af því í framtíðinni.