DUST 514 fyrir almenning

Það er ánægjulegt að lesa um viðbrögð við nýjum leik CCP, DUST 514. Leikurinn var opnaður almenningi á miðvikudag, 23. janúar, þegar svokölluð opin beta-prófun leiksins hófst, en það er síðasta þróunarstig leiksins.

Spilarar hafa beðið þessa nýja leiks með óþreyju, en hann var kynntur á Fanfest-hátíð CCP í Hörpunni í mars á síðasta ári. Núna geta eigendur Playstation 3 leikjatölva halað niður DUST 514 sér að kostnaðarlausu, en CCP hyggst afla tekna í gegnum sölu á ýmsum viðbótum og varningi sem getur komið að gagni í leiknum, eins og skýrt var frá á fréttavef Vísis.

 Fréttavefur mbl.is fjallaði einnig um DUST 514 á dögunum og hafði eftir Hilmari Veigari Péturssyni, framkvæmdastjóra CCP, að það hefði verið risastórt og flókið verkefni að tengja saman tölvuleiki fyrirtækisins, þ.e. DUST 514 og hinn tíu ára gamla og sívinsæla EVE Online. Hilmar líkti þessu við að tengja saman Seðlabanka Íslands og Noregs, þar sem tveir stórir gagnagrunnar mismunandi þjóða séu sameinaðir í einn.

 Eve Online var kynntur til sögunnar fyrir áratug. Þá voru starfsmenn fyrirtækisins tæplega þrjátiu, en nú eru þeir hálft þúsund. Það hefur verið ánægjulegt að eiga hlut að vexti og viðgangi fyrirtækisins og full ástæða til áframhaldandi bjartsýni.

 Listaverk við gömlu höfnina

 Þá er gaman að geta þess, að CCP vill gefa borginni 25 milljón króna útlistaverk eftir Sigurð Guðmundsson við gömlu höfnina í Reykjavík. Á fundi borgarráðs á fimmtudag var ákveðið að vísa því máli til menningar- og ferðamálaráðs borgarinnar. Vonandi fær það skjóta og góða afgreiðslu þar.