Ástæða til að fagna

Viðbrögðin við Icesave á undanförnum árum hafa reynst þjóðinni þungur baggi, mörg ljót orð hafa fallið milli frænda og vina um landráð og svik og margir hafa trúað yfirlýsingum um að byggð myndi nánast leggjast af á Íslandi og börn og barnabörn yrðu að þræla í þágu erlendra kröfuhafa um langan aldur. Að baki flestum slíkum yfirlýsingum var ekki mannvonska, heldur bjargföst trú manna að þeir væru að vinna þjóð sinni vel. En sú skelfing og ótti, sem alið var á, var hin eina sanna Icesave-grýla. Það er full ástæða til að fagna dauða hennar.

Þórður Snær Júlíusson ritar leiðara í Fréttablaðið í dag og gerir þar m.a. að umfjöllunarefni þau ummæli mín í pistli hér á síðunni að Grýla gamla væri loksins dauð og þá spurningu mína hvort menn væru núna reiðubúnir að skoða hverjir það voru, sem sáu sér hag í að vekja skelfingu hjá þjóðinni, í stað þess að segja sannleikann um Landsbankann og stöðu hans. Þar vísaði ég til þess að eignir Landsbankans nægðu fyrir Icesave-kröfum og vel það. Því hef ég haldið fram allt frá hausti 2008, þótt lengst af hafi fæstir viljað heyra það. Haustið 2008 varaði ég líka við að viðbrögð við vandanum gætu reynst afdrifaríkari en vandinn sjálfur. Það reyndist því miður líka rétt.

Þórður Snær ritar að sálrænn skaði þjóðar sem Icesave-deilur hefur rifið í sundur sé ekki mælanlegur í krónum og aurum. Þar erum við á sama máli. En ég trúi því hins vegar enn, að sálræni skaðinn hefði ekki þurft að verða svo mikill. Ef málið hefði verið nálgast af yfirvegun í upphafi, í stað þess að væna menn um landráð og lýsa því yfir að lífskjör hér færðust nánast aftur á steinöld, þá hefði ekki þurft að koma til þessa sálræna skaða.

Nú hefur óttanum verið vikið frá. Það er mesta fagnaðarefni mitt og ástæða þess að ég sagði að Grýla væri dauð. Enginn þarf lengur að fyllast skelfingu vegna þess að óvætturinn bíði eftir að hremma þá og börn þeirra, eins og látið var í veðri vaka. Sá léttir er sannarlega ekki mælanlegur í krónum og aurum og mun auka öllum bjartsýni og framkvæmdagleði. Þar með verður endanlega ljóst að Grýla mun liggja áfram í gröf sinni.