Watson og Actavis sameinast

Kaup bandaríska lyfjafyrirtækisins Watson Pharmaceuticals á Actavis hafa gengið formlega í gegn og fyrirtækið tekur að fullu við stjórnartaumunum. Samkeppnisyfirvöld í Bandaríkjunum og Evrópu hafa samþykkt samruna fyrirtækjanna og lagt þar með blessun sína yfir þetta þriðja stærsta samheitalyfjafyrirtæki heims, sem mun bera nafnið Actavis. Ég hef setið minn síðasta stjórnarfund fyrir Actavis eftir þrettán ára samleið.

Fyrir þrettán árum leitaði ég til íslenska lyfjafyrirtækisins Pharmaco og óskaði liðsinnis þess í viðskiptum í Búlgaríu. Ég sá þar mikla möguleika og vissi að Pharmaco var að leita fjárfestingartækifæra.  Úr varð að ég stofnaði félag ásamt Pharmaco og saman keyptum við 45% hlut í búlgarska lyfjafyrirtækinu Balkanpharma. Í kjölfarið eignaðist ég stóran hlut í Pharmaco og félögin voru sameinuð.  Á næstu árum bættust fleiri fyrirtæki í hópinn og árið 2004 tók nýja risafyrirtækið upp heitið Actavis.

Ég get ekki varist stolti þegar ég lít yfir sögu Actavis . Vöxtur fyrirtækisins hefur verið með miklum ólíkindum og það er nú eitt stærsta fyrirtæki landsins. Höfuðstöðvar þess eru nú í Sviss en á Íslandi starfa um 700 manns.  Alls veitir Actavis um 10 þúsund manns atvinnu víðs vegar um heiminn. Actavis breyttist á þessum árum úr íslenskri lyfjaheildsölu, með veltu upp á 3,5 milljarða króna, í eitt af stærstu félögum á samheitalyfjamarkaði í heiminum, með veltu upp á 350 milljarða króna.

Stjórn félagsins, þar sem ég var formaður í ríflega áratug, var ávallt mjög samstíga í uppbyggingu fyrirtækisins. Oft þurfti að taka skjótar ákvarðanir, en hagsmunir voru einnig gríðarlegir svo vanda þurfti til verka.  Heimurinn allur var undir. Fyrir utan að taka yfir rekstur íslenskra fyrirtækja keypti Actavis rekstur í Danmörku, Serbíu, Tyrklandi, Póllandi, Indlandi, Rúmeníu, Rússlandi, Ungverjalandi, Bandaríkjunum, Svíþjóð, Ítalíu, Kína og Hollandi. En þetta eru aðeins nokkur dæmi, enda starfar Actavis nú í fjörutíu löndum.  Á skömmum tíma komst þetta íslenska fyrirtæki í fremstu röð samheitalyfjafyrirtækja í heiminum. Og vart þarf að taka fram að um leið varð það eitt stærsta fyrirtæki sem nokkru sinni hefur verið byggt upp á Íslandi.

Stærstu viðskipti sögunnar

Vissulega var Róm ekki byggð á einum degi. Hraðinn á uppbyggingu Actavis var hins vegar með slíkum ólíkindum að mikla athygli vakti. Átta árum eftir að ég kom fyrst að rekstrinum, árið 2007, ákvað ég að bjóða öðrum eigendum að kaupa þá út og taka félagið af markaði. Sú yfirtaka var hin  stærsta sem nokkru sinni hefur verið ráðist í hér á landi – og raunar er leitun að jafn umfangsmiklum viðskiptum annars staðar í heiminum, jafnvel á árinu 2007, sem var ár hinna miklu yfirtaka.

Á þessum tíma nam verðmæti þeirra hluta, sem ekki voru í minni eigu eða félaga tengdum mér, um 2 milljörðum evra, eða hátt í 350 milljörðum króna á gengi dagsins í dag, og að baki voru um 4.300 íslenskir hluthafar. Allir þessir hluthafar, allt frá lífeyrissjóðum og bönkum niður í venjulegt fjölskyldufólk, fengu hlut sinn greiddan í beinhörðum peningum í evrum og tel ég víst að hafi hagnast vel á þeim viðskiptum.  Þar streymdi erlent fé til landsins, á sama tíma og algengast var að menn flyttu fé héðan til misgáfulegra fjárfestinga erlendis. Ólíkt flestum öðrum yfirtökutilboðum á íslenska hlutabréfamarkaðinum þá greiddi ég umtalsvert álag á hlutabréfaverð á þeim tíma og því var um að ræða hæsta verð sem nokkru sinni hafði verið greitt fyrir hlutabréf í félaginu.

Skipt um kúrs

Stuttu eftir yfirtökuna kom í ljós að rekstraráætlanir fyrirtækisins stóðust ekki. Skuldsett fyrirtækið var illa statt til að takast á við slík frávik og ljóst að skuldirnar myndu sliga félagið ef ekki kæmi til víðtækra aðgerða. Það er engin ástæða til að draga fjöður yfir þá augljósu staðreynd. En sé ég stoltur yfir vexti og viðgangi félagsins fram að þeim tíma sem ógæfan dundi yfir þá er ég ekki síður stoltur yfir hvernig tókst að snúa rekstrinum við á brún hengiflugsins, endurskipuleggja hann og ná fullum tökum á öllum vanda sem við blasti.

Á þessum miklu vaxtar- og umbrotatímum, sem þó stóðu aðeins í 13 ár, störfuðu alls fjórir forstjórar náið með stjórn fyrirtækisins. Lán Actavis var ávallt – og er enn – hið frábæra starfsfólk sem þar hefur valist til starfa. Vissulega bauð ört stækkandi lyfjamarkaður ótal tækifæri. En þau tækifæri hefði ekki verið hægt að grípa án góðra starfsmanna, sem lögðu sig alla fram. Það var ekki alltaf auðvelt, fjarri því.

Grundvöllur skuldauppgjörs

Frá hausti 2008 hef ég unnið að skuldauppgjöri við lánardrottna mína. Samkomulag um það uppgjör lá fyrir sumarið 2010. Frá upphafi var ljóst að Actavis myndi gegna þar lykilhlutverki, enda lang verðmætasta eignin í eignasafni mínu. Skuldir er ekki hægt að gera upp nema raunveruleg verðmæti liggi að baki. Ég vildi ekki flana að sölu fyrirtækisins, enda hefði það verið óðs manns æði og til allrar hamingju höfðu lánardrottnar skilning á þessu. Ég átti frumkvæði að því að leita eftir samningum við bandaríska lyfjafyrirtækið Watson og stýrði þeim í höfn.  Þá sannaðist hve vel hafði tekist að snúa rekstri Actavis við, því Watson greiddi um 700 milljarða íslenskra króna fyrir fyrirtækið og tekur í dag, 1. nóvember 2012, við stjórnartaumunum.

Í mínum huga lá beint við að kanna áhuga Watson á kaupum enda fjársterkt félag með öflugan rekstur og metnaðarfull markmið.  Ég er sammála framtíðarsýn stjórnenda Watson og er sannfærður um að þetta sé rétt skref fyrir Actavis. Actavis mun halda áfram að vaxa og dafna eftir sameininguna við Watson. Það er mér sérstakt ánægjuefni að við stjórnvölinn verður Sigurður Óli Ólafsson, aðstoðarforstjóri Watson.  Sami maður og náði, í samstarfi við Novator og lánveitendur félagsins, að snúa rekstri Actavis við þegar í ljós kom að grunnstoðir félagsins, sem hafði vaxið hratt, voru veikar og rekstraráætlanir höfðu brostið.  Því góða starfi var síðan haldið áfram af Claudio Albrecht og Peter Prock og núverandi stjórnendateymi félagsins.

Salan á Actavis var afar mikilvægt skref í skuldauppgjöri mínu. Lang stærsti hluti þeirra 700 milljarða króna, sem Watson greiðir fyrir Actavis, rennur til lánardrottna. Þar er Deutsche Bank stærstur, en einnig áttu Landsbankinn, Straumur og Glitnir verulegra hagsmuna að gæta. Tugir milljarða króna renna til íslensku bankanna við þessa sölu.

Kaup Watson á Actavis hafa nú verið samþykkt af samkeppnisyfirvöldum í Evrópu og Bandaríkjunum og því ekkert sem stendur í vegi fyrir samruna þessara stóru fyrirtækja. Það er merkur áfangi og ég óska öllum vinum mínum og samstarfsmönnum hjá Actavis sl. 13 ár til hamingju. Ég sleppi hendinni af rekstri Actavis í fullvissu þess að sameinuðu fyrirtæki mun vel farnast í framtíðinni.