Við sama heygarðshornið
DV slær því fram með upphrópunum í dag að embætti sérstaks saksóknara sé að rannsaka meinta markaðsmisnotkun Straums-Burðaráss fjárfestingarbanka. Kæran á að hafa borist embætti sérstaks saksóknara „fyrir nokkrum mánuðum“ að því er DV segir. Blaðið tíundar svo hvaða þáverandi starfsmenn bankans gætu hugsanlega legið undir grun. Þar er ég að sjálfsögðu ekki á blaði, en það kemur ekki í veg fyrir að blaðið birti mynd af mér með fréttinni og á forsíðu blaðsins. DV dregur aldrei af sér þegar í boði er að tengja nafn mitt á neikvæðan hátt við fréttir blaðsins.
Það er athyglivert að kæran á að hafa borist embætti sérstaks saksóknara fyrir nokkrum mánuðum, en hefur þó ekki borist DV til eyrna fyrr. Yfirleitt hafa verið styttri boðleiðir milli DV, FME og sérstaks saksóknara.
DV hefur réttilega eftir talsmanni mínum að embætti sérstaks saksóknara hafi ekki haft samband við mig vegna kærunnar. Í raun er sérkennilegt að það skuli vera fyrsta spurning sem vaknar í huga blaðamanns við ritun fréttarinnar, enda kemst hann sjálfur að þeirri niðurstöðu að aðrir séu hugsanlega grunaðir í málinu.
Auðvitað er þráhyggja DV orðin nokkuð þreytandi, ég viðurkenni það fúslega. Það er ergilegt að vera sífellt dreginn fram í sviðsljósið vegna mála, sem snerta mig ekkert. En blaðið lætur þá aðra í friði á meðan, þeir kunna vonandi að meta það.
Fréttamaður 365 tók frétt DV upp á ljósvaka og á Vísi.is. Hann hefur mörg orð um að meint markaðsmisnotkun Straums-Burðaráss sé keimlík máli tengdu Kaupþingi þar sem tveir miðlarar voru dæmdir fyrir brot sín. Samt beinist athygli hans, rétt eins og kollega hans hjá DV, fyrst og fremst að stjórnarformanninum fyrrverandi. Og það þrátt fyrir að talsmaður minn ítreki, að ég hef aðeins einu sinni farið í skýrslutöku hjá embætti sérstaks saksóknara, en það var sem vitni í málum sem tengjast Landsbankanum.