Verne valið á Sustainia 100-listann

Fyrirtækið Verne Global hefur verið valið á listann Sustainia 100 yfir fyrirtæki sem stunda sjálfbæra starfsemi. Verne rekur gagnaver í Reykjanesbæ og knýr það áfram með hreinni orku frá jarðvarma- og vatnsfallsvirkjunum. Hinar sjálfbæru orkulindir, stöðugleiki orkunnar og góð tenging við umheiminn eru grundvallarskilyrði fyrir rekstri gagnavers Verne.

Pressan

greindi frá viðurkenningu Sustainia fyrir helgina og hafði eftir Jeff Monroe, stjórnarformanni Verne Global, að það væri heiður að vera í hópi þeirra fyrirtækja sem talin væru bjóða upp á sjálfbærustu lausnirnar. Óhætt er að taka undir þau orð. Sustainia eru afar virt samtök og við vinnslu listans leita samtökin fanga í 56 löndum í sex heimsálfum. Í frétt á heimasíðu Verne Global kemur jafnfram fram að þau 100 fyrirtæki, sem valin eru á listann, komi til álita við veitingu Sustainia-verðlaunanna, en þau verða afhent í Kaupmannahöfn síðar á þessu ári.

Verne keypti byggingar af Þróunarfélagi Keflavíkurflugvallar árið 2008 og hóf þannig undirbúning þess að byggja upp öflugt gagnaver. Sú uppbygging hefur gengið vel, en henni er hins vegar ekki lokið. Reiknað er með að gagnaverið verði fullbúið í fjórum byggingum eftir fimm ár, árið 2017. Þegar rekstur verður kominn á fullan skrið munu skapast um 100 störf hjá fyrirtækinu, en fjöldi manns hefur hingað til haft atvinnu af framkvæmdum vegna gagnaversins. Gagnaverið er því kærkomin viðbót á því svæði þar sem atvinnuleysið er hvað mest á landinu.

Fjárfestingarfélag mitt, Novator, átti frumkvæði að stofnun eignarhaldsfélagsins Verne Holdings. Stærstu hluthafarnir nú eru vel þekktir erlendir fjárfestingarsjóðir, General Catalyst Partners og Wellcome Trust.