Upplýsingar og ákæruatriði
Enn bólar ekki á skýringum á því hvers vegna Kaupþing fékk 500 milljónir evra að láni þremur dögum áður en bankinn féll. Ekki er heldur ljóst hvert allt það fé rann. Og engar skýringar hafa fengist á því hvers vegna Landsbankanum var á sama tíma neitað um lægri upphæð til að koma Icesave í breska lögsögu. Það virðist borin von að málið verði upplýst fyrir Landsdómi, en fréttamenn hafa þó fjallað nokkuð um það.
Í þættinum Reykjavík síðdegis á Bylgjunni sl. föstudag (hefst á 6:30 mín) komu fram áhugaverðar vangaveltur Þorbjörns Þórðarsonar, fréttamanns Stöðvar 2. Þorbjörn hefur staðið vaktina í Þjóðmenningarhúsinu frá fyrsta degi og er greinilega einn þeirra sem telur skipta miklu að upplýsa málið. Í þættinum segir Þorbjörn að hann hafi innt saksóknara Alþingis eftir því, að loknum vitnisburði fyrrverandi forstjóra Kaupþings, hvers vegna ekki væri spurt um þessa lánveitingu. Saksóknari hafi svarað á þann veg, að þetta mál félli ekki beint undir ákæruna gegn fyrrverandi forsætisráðherra. En í þættinum bætir Þorbjörn við, að hann sjálfur telji þetta mál einmitt hafa þýðingu því það lýsti afstöðu ríkisins til þess hvað hægt hafi verið að gera á þeim tíma. „Þessi lánveiting endurspeglar að Kaupþing hljóti að hafa verið ofboðslega sterkur banki, ekki satt?“ segir Þorbjörn og bætir við að lánveitingin endurspegli a.m.k. að menn hafi ekki séð neitt aðsteðjandi vandamál varðandi þann banka.
Þrátt fyrir þessar vangaveltur tekur Þorbjörn undir það mat saksóknara að í þröngum skilningi falli þetta mál ekki undir ákæruatriðin. Engin ástæða er til að efast um afstöðu saksóknara, en málið sýnir enn einu sinni að Landsdómur er fjarri því að vera sannleiksnefnd fyrir opnum tjöldum, sem æskilegast hefði verið að starfaði í kjölfar hruns.
RÚV fjallaði einnig tvívegis um lánið til Kaupþings í Tíufréttum í síðustu viku. Í fréttatímanum 7. mars talaði Kristín Sigurðardóttir fréttamaður við Gylfa Magnússon, fyrrverandi viðskiptaráðherra, sem sagði eðlilegt að draga einhvern til ábyrgðar vegna þessara miklu mistaka. Kvöldið eftir kom fram í frétt Kristínar að líkur væru á að Seðlabankinn fengi lítið sem ekkert af því sem eftir stendur af láninu til Kaupþings frá 6. október 2008.