Upplýsinga að vænta um afdrif milljarðanna?

Enn hafa engin svör fengist við því hvað varð af þeim 500 milljónum evra, 82,5 milljörðum króna, sem Seðlabankinn lánaði Kaupþingi þremur dögum fyrir fall bankans í október 2008. Fyrrverandi forstjóri Kaupþings getur vonandi upplýst málið þegar hann kemur fyrir Landsdóm í dag. Þótt Landsdómur sé fjarri því að vera sannleiksnefnd fyrir opnum tjöldum, eins og best hefði verið að setja á laggirnar í kjölfar hruns, þá hljóta menn þó a.m.k. að vilja upplýsa hvað varð um þessa fjármuni almennings.

 

Ýmsir tóku við sér þegar Geir H. Haarde nefndi í vitnastúkunni í Þjóðmenningarhúsinu að lánið frá Seðlabanka hefði „farið annað en það átti að fara“. Þannig  skýrði Ríkisútvarpið frá því í frétt á þriðjudagskvöld að lánið hefði farið í að styrkja útibú Kaupþings í Svíþjóð, Lúxemborg, Noregi og Finnlandi. Þar vitnaði fréttastofan í ummæli sem höfð eru eftir fyrrverandi forstjóra Kaupþings í Rannsóknarskýrslu Alþingis.

Það gleymist gjarnan, að ýmsar upplýsingar hafa litið dagsins ljós frá því að rannsóknarnefnd Alþingis lauk gagnaöflun sinni. Fjölmiðlar láta oft eins og í skýrslunni liggi hinn endanlegi og óbreytanlegi sannleikur og hirða jafnvel ekki um að geta skýrra athugasemda. Sjálfur lagði ég fram mjög ítarlegar athugasemdir við skýrsluna í apríl 2011, en sú staðreynd hefur því miður ekki tryggt að sjónarmiðum mínum sé haldið á lofti þegar fjallað er um mál sem mér tengjast.

En víkjum þá að nýrri upplýsingum, sem virðast tengjast afdrifum neyðarláns Seðlabankans til Kaupþings. Viðskiptablaðið skýrði frá því í maí 2010, mánuði eftir að rannsóknarskýrslan kom út, að Kaupþing hefði lánað félaginu Lindsor 171 milljón evra hinn 6. október 2008, eða sama dag og Seðlabankinn veitti Kaupþingi 500 milljóna evra neyðarlánið.  Lánið til Lindsor, sem var aldrei borið undir lánanefnd bankans, var m.a. notað til að kaupa skuldabréf af Kaupþingi í Lúxemborg og einstökum starfsmönnum þess banka, að því er segir í frétt Viðskiptablaðsins.  Vísaði blaðið þar til greinargerðar sérstaks saksóknara vegna gæsluvarðhaldskröfu yfir einum yfirmanna Kaupþings.

Í fréttaskýringu Morgunblaðsins í maí 2010 er félagið Lindsor nefnt, en einnig félögin Chesterfield United Inc. og Partridge Management Group, sem blaðið segir að hafi fengið lán frá Kaupþingi eftir að bankinn fékk neyðarlánið frá Seðlabanka.

Ári eftir útkomu rannsóknarskýrslunnar birti Viðskiptablaðið aðra frétt um Lindsor, í kjölfar húsleita sérstaks saksóknara. Þar kemur fram að þessi kaup Lindsor á skuldabréfum hafi tryggt seljendunum umtalsverðan ágóða, enda bendi gögn til að þau hafi verið keypt á mun hærra verði en markaðsverði. Mánuði síðar birti Viðskiptablaðið svo þriðju fréttina, þar sem hnykkt var á því að lánveitingar til Lindsor væru til rannsóknar hjá embætti sérstaks saksóknara. Engar nýrri fréttir virðast hafa verið skrifaðar af gangi þess máls.

Fyrrverandi forstjóri Kaupþings er á vitnalista Landsdóms í dag og verður vonandi spurður að því  hvert þessar 500 milljón evrur runnu. Það fé virðist glatað að mestu, að því er komið hefur fram.