Undarleg lánveiting enn óskýrð

„Þessi lánveiting var um margt afar skrýtin“, ritar Gylfi Magnússon dósent við Háskóla Íslands og fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra um 500 milljón evra lán til Kaupþings hinn 6. október 2008. Þá ritar Gylfi að öllum hafi mátt vera ljóst á þessum tíma að Kaupþing var á leið í þrot og að Seðlabankinn mátti alls ekki við því að missa 500 milljónir evra af gjaldeyri á þessum tíma. Grein Gylfa, Lánað úr litlum forða, birtist í Fréttablaðinu í gær. Gylfi tekur fram í grein sinni að í raun hafi Kaupþing fengið lánaðar 600 milljónir evra frá Seðlabankanum fyrir hrun, yfir 100 milljarða króna, því bankinn fékk tvö lægri lán til viðbótar við 500 milljónirnar.

 

Þá ritar Gylfi: „Sviptingarnar haustið 2008 kipptu fótunum undan fjármögnun gjaldeyrisforða Seðlabankans. Þegar í lok september, nokkrum dögum fyrir hrun bankakerfisins og fyrrnefnda lánveitingu til Kaupþings, var orðið ljóst að í óefni stefndi. Gjaldeyrisforðinn var kominn niður í 825 milljónir evra og lánin þrjú til Kaupþings því rétt rúm 72% hreins forða.“

Stefndi  í greiðsluþrot Seðlabanka og ríkisins

Þá ritar hann einnig: „Þegar gjaldeyrisforði Seðlabanka var orðinn þetta lítill hafði bankinn nær ekkert raunverulegt svigrúm til að tryggja bankakerfinu laust fé í erlendri mynt. Seðlabankinn gerði það samt og afhenti Kaupþingi tæpar 600 milljónir evra. Það var hluti af skýringunni á því að í lok október 2008 var gjaldeyrisforðinn orðinn neikvæður um 319 milljónir evra – Seðlabankinn átti vergan forða upp á einungis 2.670 milljónir evra til að standa í skilum með greiðslur sem gátu numið allt að 2.989 milljónum evra á næstu tólf mánuðum og þar af allt að 1.813 milljónum í nóvembermánuði einum. Þróun gjaldeyrisforðans þessa haustmánuði þýddi einfaldlega að það stefndi mjög hratt í greiðsluþrot Seðlabankans og íslenska ríkisins og vöruskort innanlands. Því var afstýrt með því að kalla til aðstoð Alþjóða gjaldeyrissjóðsins.“

Töluvert hefur verið rætt og ritað um þá undarlegu ákvörðun Seðlabankans að lána Kaupþingi þrjá fjórðu hluta af hreinun gjaldeyrisforða landsins. Fyrrverandi formaður bankastjórnar Seðlabankans hefur lýst því yfir að hann hafi séð fall bankanna fyrir með drjúgum fyrirvara. Samt var þessi ákvörðun tekin. Seðlabankinn hefur nú upplýst  að ekki hafi legið fyrir formleg samþykkt bankastjórnar Seðlabankans og ekki hafi verið útbúinn lánasamningur vegna þessarar lánveitingar.

Afrit af samtali þáverandi formanns bankastjórnar og þáverandi forsætisráðherra þar sem þeir ræða lánveitinguna varpar líklega einhverju ljósi á málið, en það hefur ekki verið gert opinbert enn.